152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Valdasjúkir og veruleikafirrtir stjórnmálaleiðtogar eru hættulegir saklausu fólki, þeir eru hættulegir heiminum. Okkur ber skylda til að bregðast við af fullum þunga til að verja borgara Úkraínu og til að verja vestræn gildi um lýðræði, mannréttindi og frelsi. Þvingunaraðgerðum er ætlað að snúa við hagsmunamati þeirra sem telja stríðsátök einu leiðina til að ná markmiðum sínum og til þess þurfa þær einfaldlega að skila umtalsverðu tjóni á viðskiptahagsmunum. Þvingunaraðgerðir af þessari stærðargráðu hafa ekki verið virkjaðar til þessa vegna skorts á vilja og vegna hræðslu við afleiðingar heima fyrir. Það er ekki hjá því komist, eigi efnahagsþvinganir líkt og nú er talað um að gera gagn, eigi þær að stöðva Pútín Rússlandsforseta, að þá muni það hafa afleiðingar fyrir almenna borgara. Og ekki bara í Rússlandi. Í alþjóðavæddum heimi eru hagsmunir þjóða samofnir. Frjáls samskipti á milli þjóða hafa verið grunnur velmegunar og hagsældarþróunar síðustu áratugi. Ef við leyfum Pútín að rústa þeirri þróun mun það verða okkur verulega dýrkeypt til lengri tíma litið.

Spurningin er: Hvað er ásættanlegur kostnaður til að viðhalda þessu alþjóðakerfi frjálsra samskipta sem hefur verið byggt upp eftir síðari heimsstyrjöld? Hvað má það kosta fyrirtæki og heimili í hinum vestræna heimi og hvað vegur sá skammtímakostnaður á móti þeirri áhættu að leyfa Pútín að grafa undan vestrænum gildum um mannréttindi, frelsi og lýðræði? Þetta er lykilatriði fyrir þjóðir heimsins en þetta er ekki síst lykilatriði fyrir Ísland sem á allt sitt undir því að alþjóðalög séu virt og landamæri þjóða séu örugg.