152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

störf þingsins.

[15:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Stríð valdhafa í Rússlandi gegn Úkraínu er stríð gegn Evrópu. Valdhafinn og einræðisherrann Pútín lýgur að eigin þjóð og alþjóðasamfélaginu. Honum má aldrei takast að sundra samstöðu Vesturlanda. Alþjóðlegar efnahagsrefsingar gegn Rússum verða að vera mjög harkalegar. Það duga engin vettlingatök. Herveldi sem ræðst inn í sjálfstætt og fullvalda ríki Evrópu og ógnar þar með friði í allri álfunni, er herveldi sem enginn getur treyst. Næst gæti það verið Pólland eða Finnland.

Stríðið í Úkraínu sýnir fram á mikilvægi NATO og sannar tilgang þess sem varnarbandalags. Nú sem aldrei fyrr þarf Ísland að standa við skuldbindingar sínar gagnvart NATO og tryggja að hér sé ávallt til staðar sú aðstaða fyrir varnarviðbúnað sem gæti skipt okkur sköpum á örlagastundu. Gleymum því ekki að Rússar voru fyrir skömmu með heræfingar undan ströndum Írlands í óþökk Íra.

Engin leið er að sjá hvernig atburðarásin verður næstu daga í Úkraínu. Miklar líkur eru þó á því að örlagastund muni brátt renna upp. Upphafið að endalokum Úkraínu sem frjáls og fullvalda ríkis gæti verið á næsta leiti. Það má hinn frjálsi vestræni heimur aldrei sætta sig við. Atburðarásin í Úkraínu verður ekki stöðvuð með orðum. Orðum verða að fylgja efndir, að veita Úkraínu hraðferð inn í Evrópusambandið. Umsóknina á ekki að setja niður í skúffu. Á örlagastundu þegar framtíð Evrópu er í húfi má aldrei hika. Almenningur í Rússlandi vill ekki stríð. Ég vona svo sannarlega að rússneskur almenningur rísi upp gegn stjórnvöldum í Kreml og dagar Pútín-stjórnarinnar heyri brátt sögunni til.