152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:41]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Á heimasíðu Útlendingastofnunar stóð allt fram til loka septembermánaðar síðastliðins, með leyfi forseta:

„Alþingi hefur heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt með lögum. Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði sem sett eru fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar í lögum nr. 100/1952 getur hann óskað eftir að umsókn hans verði lögð fyrir Alþingi. Umsóknir eru lagðar fyrir Alþingi tvisvar á ári, á vormánuðum og í desembermánuði. Umsóknarfrestur fyrir vorþing er til og með 1. mars og fyrir haustþing til og með 1. október ár hvert.“

Í dag er 2. mars. Það er búið að taka þessa tilkynningu af heimasíðu Útlendingastofnunar án nokkurs samráðs við þingið, eins og frægt er orðið. Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort nokkuð miði í hans tilraunum til að tryggja það að ríkisstjórnin sýni Alþingi þá virðingu sem henni ber.