152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:45]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Bara til að upplýsa um stöðuna þá er hún sú sama og hún var hér í janúar. Hún er þannig að Útlendingastofnun neitar að afhenda þinginu þau gögn sem þinginu eru nauðsynleg til að vinna vinnu sína og enn fremur neitar Útlendingastofnun, samkvæmt fyrirmælum hæstv. dómsmálaráðherra, að vinna samkvæmt verklagi sem Alþingi hefur ákveðið um afgreiðslu þessara umsókna. Staðan í dag er sú að fólk sem ætlar að sækja um til þingsins veit ekki hvort það á að gera það, það veit ekki hvenær það á að gera það, það veit ekki hvað verður um umsóknina. Ég fæ ítrekað þá spurningu hvort þingið muni yfir höfuð fá umsóknina ef fólk sækir um til þingsins. Það er allt í óvissu og þetta er ekki vegna þess að nefndin hefur ákveðið að endurskoða fyrirkomulagið. Nefndin hefur ákveðið að endurskoða fyrirkomulagið og þangað til að þeirri endurskoðun er lokið gildir það fyrirkomulag sem þingið hefur ákveðið og er búið að ákveða.