152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er þungbært að stíga í pontu og ávarpa Alþingi af jafn alvarlegu tilefni og nú þegar blóðugt innrásarstríð er hafið í Evrópu. Innrás Rússlands í Úkraínu er tilefnislaus, ólögmæt og grimmileg. Hernaðaraðgerðir sem Vladimír Pútín fyrirskipar eru augljóst og gróft brot á alþjóðalögum og skefjalaus atlaga að mannhelgi. Stríðsrekstur Rússa hefur kallað ómældar hörmungar yfir saklausa borgara í Úkraínu og er alvarlegasta ógn við frið og öryggi í Evrópu svo áratugum skiptir. Þær tylliástæður sem Rússar hafa gefið fyrir innrásinni eiga sér enga stoð í veruleikanum. Hin raunverulega undirrót hernaðarins má öllum vera ljós. Fyrir Rússlandsforseta vakir ekkert annað en að grafa undan þeim gildum sem okkur eru dýrmætust; frelsi, sjálfsákvörðunarrétti, lýðræði og mannréttindum. Honum stendur engin ógn af frjálsum úkraínskum borgurum. Honum stendur engin ógn af því varnarbandalagi sem Atlantshafsbandalagið er. Honum stendur ógn af því að fleiri séu frjálsir og lýðræði sé víðar og mannréttindi séu virt.

Alvarleiki málsins endurspeglast í viðbrögðum alþjóðasamfélagsins. Friðelskandi þjóðir eiga engan annan kost en að bregðast við af fullri festu. Ríki heims hafa þegar gripið til harðari þvingunaraðgerða gagnvart árásaraðilanum en dæmi eru um í seinni tíð. Stuðningur íslenskra stjórnvalda við Úkraínu er staðfastur og ótvíræður. Um það er full eining innan ríkisstjórnarinnar og á Alþingi og það þykir mér vænt um, ekki bara sem utanríkisráðherra heldur sem almennum borgara. Í viðbrögðum okkar höfum við jafnframt verið samstiga vina- og bandalagsríkjum. Ísland tekur fullan þátt í víðtækum þvingunaraðgerðum gagnvart Rússlandi og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að svara ákalli úkraínsku þjóðarinnar um aðstoð.

Um leið og fréttir bárust af innrásinni ákváðum við að veita þá þegar 150 millj. kr. til mannúðaraðstoðar vegna Úkraínu sem skiptast jafnt á milli Alþjóðaráðs Rauða krossins, Úkraínusjóðs samhæfingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hér munum við til viðbótar veita 150 millj. kr. framlag sem mun skýrast á allra næstu dögum hvernig best verður varið til að sinna brýnum mannúðarþörfum. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að það þarf að vera svigrúm til að hlusta eftir því hvar þörfin er mest og þar sem þrýstingurinn er gríðarlegur við ákveðin landamæri kann að vera að það þurfi að vera forgangsatriði að hjálpa fólki að hjálpa öðru fólki þar. Ákvarðanir um frekari stuðning verða teknar eftir því sem málum vindur fram og við blasir að við munum bæði taka á móti fólki sem hingað kemur og aðstoða með þeim hætti sem við getum þar sem neyðin er mest. Við ætlum að leggja okkar af mörkum til viðbragða við því neyðarástandi sem innrásin hefur valdið, þar á meðal með móttöku flóttamanna.

Við Íslendingar erum herlaus þjóð og oft er því bætt við að við séum friðelskandi og vissulega erum við það, sem betur fer. En reyndin er sú að venjulegt fólk í öllum löndum er líka friðelskandi og hatar stríð og þetta á einnig og ekki síst við í löndum sem ekki geta kosið þann munað að vera herlaus. Við getum leyft okkur að vera þakklát fyrir herleysið en við eigum ekki að gorta okkur af því. Ísland treystir nefnilega líka á hernaðarstyrk þegar á reynir til að tryggja frið og öryggi okkar.

Úkraínska þjóðin hefur biðlað eindregið til ríkja heims um að láta henni í té hergögn og annan búnað sem getur gagnast til að verjast sókn Rússa. Flestar grannþjóðir okkar hafa ákveðið að leggja Úkraínu til vopn og varnarbúnað, jafnvel þjóðir sem hingað til hafa ekki léð máls á að veita slíka aðstoð. Svíþjóð er að gera það í fyrsta skipti í 83 ár. Evrópusambandið, sem búið er til utan um frið, er að gera það. Þjóðverjar eru að gera það. Flestar þjóðir eru að gera það. Sem herlaust ríki getum við eðli máls samkvæmt ekki lagt fram hergögn eða annan sérhæfðan varnarbúnað en við höfum svarað kalli úkraínsku þjóðarinnar um liðsinni við birgðaflutninga með því að leggja til afnot af fraktflugvél. Við höfum stutt við áætlun Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu um þróun sérfræðiþekkingar á sviði öryggis- og varnarmála. Ég vil undirstrika að þær aðgerðir sem hér um ræðir miða alfarið að því að styðja við varnir og fullveldi Úkraínu. Eins og hv. þingmaður nefndi er úkraínska þjóðin að berjast fyrir frelsi og ekki bara sínu frelsi heldur líka okkar frelsi.

Staðan er uggvænleg. Við tökum skýra stöðu með vestrænum lýðræðisríkjum. (Forseti hringir.) Við vonumst til friðsamlegra lausna almennt í deilumálum og berum og viljum virðingu fyrir alþjóðalögum og mannréttindum. (Forseti hringir.) Þjóðaröryggisstefnan, af því að hv. þingmaður spurði, er mjög skýr (Forseti hringir.) um aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og við fylgjum henni stíft.