152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að óska eftir umræðunni, sem ég veit hann gerði fyrir einhverjum dögum síðan, og þingmönnum fyrir þessa umræðu og ítreka það aftur að það er gott til þess að vita og gott að finna fyrir þeirri samstöðu sem ríkir hingað til. Ég veit að ýmislegt getur breyst og gerst en mér finnst sómi að því fyrir okkur hér, langt í burtu í okkar öryggi, að geta staðið saman sem einn maður og gert það sem við getum til handa úkraínsku þjóðinni. Í þessari krísu er einn árásaraðili. Það eru rússnesk yfirvöld og ég er sammála þeim þingmönnum sem hafa nefnt að það er mikilvægt að skilja að rússnesk yfirvöld annars vegar og rússneskan almenning hins vegar vegna þess að forseti Rússlands hefur með ófyrirleitnum hætti látið í það skína að hann sé tilbúinn að gera mjög mikið til að ná sínu fram og sé reiðubúinn að beita gjöreyðingarvopnum. Ég ætla ekki að draga fjöður yfir það að sú staða er ógnvænleg.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi sérstaklega sérfræðinga í borgaralegum störfum Íslands á vegum Atlantshafsbandalagsins. Við erum í dag með níu sérfræðinga í öryggis- og varnarmálum á vegum utanríkisráðuneytisins og flestir eru hjá NATO. Við stefnum að því að þeir verði 13 í lok árs og við höfum nú mannað sérfræðing í upplýsingamálum í samstöðuaðgerðum Atlantshafsbandalagsins í Litháen og erum þar líka með Eistlandi og Lettlandi. Þetta skiptir þessi lönd og okkur miklu máli. Vera okkar í NATO gerir það líka og við erum skýr í því. Því fylgir ábyrgð og því fylgja skyldur sem við höfum axlað og ætlum að axla og ég tek undir það að netárásir og fjölþáttaógnir eru vaxandi verkefni sem við þurfum að taka mjög alvarlega.