152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

lífeyrisbætur og verðbólguhækkanir.

[11:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta liggja á milli hluta hver er að snúa út úr hér og hver ekki. En það er rétt sem hv. þingmaður segir að núna á árinu 2022, þegar við sjáum vaxandi verðbólgu, er kjörum lægst launaða fólksins og þeirra sem hafa minnst milli handanna ógnað. Það er hárrétt. Ég geri ekki ágreining um það. Þetta er akkúrat minn málflutningur, að við þurfum að hafa áhyggjur af verðbólgunni vegna þessa fólks. Þegar við horfum til baka og skoðum árangurinn frá 2013 og spyrjum okkur hvernig hefur tekist að tryggja kaupmátt bóta í landinu þá er niðurstaðan alveg skýr og hún er mælanleg. Það hefur tekist að lyfta verulega undir með þessum hópi. Þegar vísað er í orð mín um að ég segi að hópurinn sé smár, að hann sé ekki stór, þá er verið að vísa í þau orð mín að það eru fáir í ellilífeyrishluta almannatrygginga sem hafa engar aðrar tekjur en þær sem koma frá almannatryggingum. Það eru mjög fáir sem hafa engar lífeyristekjur, engar launatekjur, engar fjármagnstekjur, enga framfærslu af nokkrum öðrum toga (Forseti hringir.) heldur en bæturnar frá almannatryggingum. Þetta eru fáir einstaklingar en við höfum verið að lyfta sérstaklega undir með þeim.