152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

ummæli dómsmálaráðherra um flóttamenn.

[11:04]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og fyrir að taka upp málefni fólks á flótta frá Úkraínu út af þessu hörmulega stríði sem þarna geisar og við erum öll sammála um að sé hræðilegt fyrir ekki bara það fólk sem þarna býr heldur í rauninni fyrir það hvernig það ógnar heimsfriði. Ég hef lýst því skýrt yfir, hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. forsætisráðherra, einnig hæstv. dómsmálaráðherra og fleiri ráðherrar, að Ísland mun taka á móti fólki frá Úkraínu. Það er mergurinn málsins og við það munum við að sjálfsögðu standa. Ég tel það mjög mikilvægt að við sýnum samstöðu með flóttafólki frá þessu svæði og með öðrum Evrópuríkjum þegar þau stíga fram og taka á móti fólki, taka með opnum örmum á móti þeim sem þarna búa við aðstæður sem við öll eigum mjög erfitt með að setja okkur inn í. Ég er þeirrar skoðunar, svo að ég komi nú að því að svara spurningu hv. þingmanns, að í svona málum þá fari best á því að tala varlega, tala af virðingu um fólk og tala með þeim hætti að við höfum frið að leiðarljósi því að friðurinn er undirstaða þess að við getum áfram búið í lýðræðissamfélögum og búið við velferð sem við viljum öll halda áfram að byggja upp.