Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

ummæli dómsmálaráðherra um flóttamenn.

[11:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Að tala varlega er kannski frekar veik afstaða gagnvart þessari orðræðu sem hefur verið í gangi, svo ég segi ekki meira. Ég fordæmdi þessi ummæli og sagði þau með ógeðfelldari atriðum í útlendingapólitík á Íslandi sem ég hefði upplifað. En jú, það er hægt að biðja ráðherrann um að tala varlega um málaflokk sem hann fer fyrir. Ráðherrann sagði einnig að hann væri að vekja athygli á þeirri alvarlegu stöðu að flóttafólk frá Afganistan, Sýrlandi og fleiri stríðshrjáðum ríkjum væri að teppa aðstöðuna fyrir Úkraínumönnum. Hann ætli að koma með nýtt útlendingafrumvarp sem muni leysa þessi brýnu mál fyrir okkur. Nú er það í verkahring hæstv. ráðherra að sinna húsnæðismálum hælisleitenda. Það er nýbúið að færa þann viðkvæma flokk yfir til hæstv. ráðherra. Mun hann standa fyrir því að rýma húsnæði annarra (Forseti hringir.) flóttamanna en þeirra frá Úkraínu til að hægt sé að koma (Forseti hringir.) réttu flóttamönnunum fyrir?