152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

svör við fyrirspurnum.

[11:09]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp vegna svara eða öllu heldur skorts á svörum við skriflegum fyrirspurnum. Þetta er eitt af þeim verkfærum sem við þingheimur höfum til að kalla eftir upplýsingum og samtali við ráðherra um gögn. Ég sé að hér er staddur hæstv. félagsmálaráðherra sem á t.d. eftir að svara spurningu sem ég lagði fram til hans skriflega um miðjan janúarmánuð. Samkvæmt þingskapalögum á hann að hafa til þess 15 virka daga. Ég er með aðra fyrirspurn sem hæstv. heilbrigðisráðherra fékk til sín í desembermánuði. Auðvitað geta alltaf komið upp sérstakar aðstæður og eitthvað komið upp á en tíminn er orðinn þannig að hér vantar mikið upp á. Ég bið um aðstoð og liðsinni forseta þingsins við að setja þrýsting á ráðherra um að koma fram með svör.