152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

svör við fyrirspurnum.

[11:12]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Nú höfum við hér í þinginu komið upp nokkrum sinnum það sem af er þessu ári til að vekja athygli á því hversu fáir ráðherrar mæta til að sitja fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Það gerðist síðast í gær þar sem fyrir lá að það átti ekki einu sinni að ná lágmarki laga varðandi það hversu margir ráðherrar sitja fyrir svörum þó að úr því hafi nú verið bætt, upp að lágmarki. Við náðum upp í þrjá með þessari ábendingu okkar. Þá langar mig að nefna það að í þau skipti sem við höfum kvartað undan þessu þá hefur okkur verið bent á það að til séu aðrar leiðir til að fá svör frá ráðherrum og frá ríkisstjórninni, þar á meðal svör við skriflegum fyrirspurnum. Ef það berast ekki heldur svör við skriflegum fyrirspurnum sem við leggjum fram er það alvarlegt mál. Því beini ég því til hæstv. forseta að benda ríkisstjórninni á það að henni ber lagaleg skylda til að sitja fyrir svörum gagnvart þinginu og að þingið geti nýtt þau tæki sem lög veita til að veita ríkisstjórninni aðhald.