152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

svör við fyrirspurnum.

[11:17]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi umræða bera þess merki að stjórnarmeirihlutinn og ráðherrar fari ekki eftir þingsköpum varðandi fyrirspurnir og virði ekki 57. gr. þingskapalaganna. Á þeim stutta tíma sem ég hef verið hér sem nýr þingmaður hef ég orðið var við það að þingmeirihlutinn getur einfaldlega bara vanvirt þingskapalög og vanvirt Alþingi. Við sjáum það á ríkisborgararéttarmálinu, þar sem Alþingi fær ekki umsagnir frá Útlendingastofnun eins og lög kveða á um, og svo aftur núna. Ég tel að það væri vert að endurskoða þingskapalög með það að markmiði að þingminnihluti gæti a.m.k. veitt ráðherra einhvers konar ávítur eða beitt agavaldi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er alveg borin von að þingmeirihlutinn sem ríkisstjórnin styðst við muni hreyfa legg eða lið til að hafa einhvern aga yfir framkvæmdarvaldinu. Ég tel því að það sé mjög vert að skoða þingskapalögin með þetta að markmiði og ég skora á þingmeirihlutann að standa líka vörð um virðingu Alþingis. Ég held að það sé mikilvægt í sjálfu sér, (Forseti hringir.) bara fyrir okkur sem stofnun.