152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

svör við fyrirspurnum.

[11:22]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ráðherra fyrirskipar undirstofnun að fylgja ekki lögum, sinna ekki skyldum sínum gagnvart þinginu. Hæstv. ráðherra kemur fram í fjölmiðlum og lýsir því stoltur yfir að það sé vegna hans fyrirmæla sem stofnun fylgir ekki skyldum sínum gagnvart þinginu. Hæstv. ráðherrar mæta ekki í óundirbúinn fyrirspurnatíma í þinginu. Hæstv. ráðherrar svara ekki skriflegum fyrirspurnum þingmanna til ráðherra. Nú er ég ný á þessu þingi, kom hingað í fyrsta skipti í haust, og þar er ég ekki ein. Það er mjög mikið um nýtt fólk hér á þinginu. Ég velti fyrir mér hvort það sé mögulega ein af ástæðum þess hversu lítið aðhald ríkisstjórnin virðist fá frá meiri hlutanum á þingi. Ég vil því bara taka undir orð hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar hér áðan. Ég skora á þingmenn í meiri hlutanum og hæstv. forseta þingsins að standa vörð um virðingu þingsins. Það er þingið sem segir ríkisstjórnin fyrir verkum, ekki öfugt.