152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

lýsing verðbréfa o.fl.

385. mál
[12:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á annars vegar lögum um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði, nr. 14/2020, og hins vegar lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021.

Með frumvarpinu er lagt til að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2021/337, sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn, verði veitt lagagildi hér á landi. Reglugerðin felur í sér breytingu á reglugerð 2017/1129 sem fjallar um lýsingu verðbréfa. Lýsing er samheiti yfir skjal eða skjöl sem gefa þarf út vegna almenns útboðs verðbréfa eða töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum markaði. Reglugerð 2021/337 er hluti af ráðstöfunum Evrópusambandsins til að tryggja greiðsluhæfi og aðgengi að fjármagni til að styðja við endurbætur eftir efnahagslega áfallið sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur valdið. Í reglugerðinni er kveðið á um tímabundnar breytingar á fyrirkomulagi lýsinga í því skyni að gera útgefendum og aðilum á fjármálamarkaði kleift að draga úr kostnaði og losa um fjármagn fyrir endurbótaferlið í kjölfar heimsfaraldursins.

Tvær meginbreytingar felast í reglugerðinni. Annars vegar er hámarksundanþága lánastofnana frá skyldunni um að birta lýsingu hækkuð úr 75 milljónum evra í 150 milljónir evra á 12 mánaða tímabili ef um er að ræða útboð eða ef verðbréf, sem ekki eru hlutabréfatengd og sem gefin eru út, eru tekin til viðskipta á skipulegum markaði samfellt og endurtekið. Hins vegar kveður reglugerðin á um nýtt, tímabundið og styttra form lýsingar, svokallaða ESB-endurbótalýsingu til fyllingar við áður útgefnar lýsingar. Heimild til að notast við endurbótalýsingu ESB og hámarksundanþáguna fellur úr gildi 31. desember 2022.

Þá kveður frumvarpið á um breytingar á lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021, sem ætlað er að tryggja að hugtakanotkun og vísanir á milli laga samræmist lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er létt tímabundið og við tilteknar aðstæður á kröfum um efni lýsinga verðbréfa. Breytingunum er ætlað að gefa lánastofnunum svigrúm til að styðja við fyrirtæki sem þurfa á endurfjármögnun að halda eftir efnahagslega áfallið vegna heimsfaraldursins. Hér er því um ívilnandi lagasetningu að ræða. Talið er æskilegt að lögin taki gildi eins fljótt og auðið er þar sem gildistími reglugerðarinnar er afar skammur og hefur hún þegar tekið gildi innan Evrópusambandsins. Ríkir hagsmunir geta falist í því að innlend fyrirtæki sitji við sama borð og aðrir aðilar á innri markaðnum hvað varðar aðgengi að fjármagni við endurfjármögnun í kjölfar heimsfaraldursins.

Virðulegi forseti Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.