152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

fullgilding fríverslunarsamnings Íslands, Noregs og Liechtenstein og Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.

206. mál
[12:17]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Hér um gríðarlega mikilvægan samning að ræða, fríverslunarsamning Íslands, Noregs og Liechtenstein við Bretland. Nú er það þannig að EES-samningurinn kom upp í hendurnar á okkur, hann var eiginlega saminn fyrir okkur af EFTA-ríkjunum á sínum tíma. Í dag er EES-samstarfið fyrst og fremst drifið áfram af Noregi, ég held um 90%, og í Bretlandi er þetta kallað „the Norwegian system“ eða norska kerfið. Ég efast ekki um að Norðmenn hafi verið algerlega drifkrafturinn í þessu, þetta hafi fyrst og fremst verið samningaviðræður milli Noregs og Bretlands, a.m.k. líta Bretar alltaf á það þannig að það sé fyrst og fremst Noregur sem er þarna undir. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Kom Ísland með einhverjar sérkröfur inn í þennan samning og var tekið tilliti til þeirra? Hverjar voru þessar sérkröfur og var tekið tillit til þeirra? Er þessi samningur eingöngu saminn á forsendum Norðmanna? Hvert var eiginlega innlegg Íslands í samningaviðræðunum og inn í samninginn sjálfan? Eins og ég sagði áðan um þetta kerfi sem er í dag þá var upphaflegi samningurinn saminn, og kostnaðurinn borinn, af ríkjum eins og Sviss, Austurríki, Finnlandi og Svíþjóð, ég veit fyrir víst að Svisslendingar voru mjög öflugir í samningagerðinni, en tóku reyndar ekki þátt í starfinu. En hver var hlutur Íslands í þessu plaggi sem hér er til fullgildingar?