152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

fullgilding fríverslunarsamnings Íslands, Noregs og Liechtenstein og Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.

206. mál
[12:24]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Já, að vissu leyti má segja að þegar hlutir eins og Brexit gerast þá þurfi allt í einu að búa til nýja samninga við nýjan aðila. Þá þarf náttúrlega að skrifa mikinn texta og stór hluti af þeim texta er kannski sá sami fyrir öll lönd. En svo eru það sértæku ákvæðin fyrir Ísland sem skipta okkur mestu máli og ég heyrði það sem áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd, og það var ekki eitthvað sem var sérstaklega stimplað sem trúnaðarmál, að okkar teymi hefði unnið hörðum höndum að því að reyna að tryggja hagsmuni Íslendinga.

Það er sjálfsögðu þannig með svona samninga að þetta þurfti að vinna svolítið hratt af því að menn héldu að Brexit myndi ekkert gerast, svo allt í einu var það orðið og sem betur fer var hægt að gera tímabundna samninga til að brúa bilið. Nú er verið að klára það ferli að koma á þessum sértæka samningi við Stóra-Bretland og Norður-Írland. Er allt þar sem íslensk stjórnvöld vildu? Nei, örugglega ekki. Þegar gerðir eru samningar milli tveggja aðila þarf að finna einhvern gullinn meðalveg sem báðir geta sætt sig við. Getum við gert betri samning? Eflaust. En á þessum tíma held ég að þetta sé ágætur — ég ætla að blanda orðunum varnarsigur og samningur saman í eitt og segja ágætisvarnarsamningur.

Það sem við getum búist við er að það þarf að sjálfsögðu að halda áfram. Það er margt sem við vorum kannski orðin vön sem hluti af EES. Má þar t.d. nefna, ef ég man rétt, að í þessum samningi eru ekki lækkuð námsgjöld en íslenskir námsmenn fengu t.d. lækkuð námsgjöld áður fyrr. Það á reyndar við, held ég, um alla Evrópubúa að fá ekki lengur lækkuð námsgjöld, heldur bara þegna Stóra-Bretlands og Norður-Írlands. Það er ýmislegt sem eflaust má laga. Menn geta eflaust rifist um það hvort á einu sviði hefði mátt ganga lengra og styttra á öðrum sviðum o.s.frv. Það mikilvæga er að við getum haldið áfram viðskiptum, við getum haldið áfram ferðalögum, við getum haldið áfram að selja þangað vöru og þjónustu og við vonum bara að það sé hvatning til ráðuneytisins að halda áfram að vinna að æ betri samningum eftir því sem tíminn líður.