152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

opinber fjármál.

65. mál
[12:46]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd þingflokks Samfylkingar fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál er varðar styrki og framlög ráðherra. Frumvarpið er ekki stórt í sniðum, það er tvær greinar og er svohljóðandi:

„1. gr.

Við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir heimild skv. 1. mgr. er ráðherra óheimilt að veita tilfallandi styrki og framlög til verkefna sem varða þá málaflokka sem hann ber ábyrgð á átta vikum fyrir auglýstan kjördag til Alþingis.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frú forseti. Í aðdraganda lýðræðislegra kosninga er nauðsynlegt að tryggja að jafnræði sé sem mest milli framboða. Sú hætta er fyrir hendi að sitjandi ráðherrar nýti sér forréttindastöðu sína til að afla sér hylli kjósenda hvort tveggja með aðgangi að fjölmiðlum og opinberu fjármagni.

Í 1. mgr. 42. gr. laga um opinber fjármál er ráðherrum heimilað að veita tilfallandi styrki og framlög til verkefna sem varða þá málaflokka sem þeir bera ábyrgð á. Í aðdraganda alþingiskosninga hefur borið á því að ráðherrar hefji úthlutanir til einstakra mála, í svo stórum stíl að almenningi blöskrar, allt fram að kjördegi til að vekja athygli á sér og sínu framboði. Telja flutningsmenn það vera ólýðræðislegt að svo sé farið með almannafé og aðstaða sé misnotuð með þessum hætti. Af þeim sökum telja flutningsmenn nauðsynlegt að setja takmarkanir á úthlutun styrkja og framlaga í aðdraganda kosninga þannig að ráðherrum sé óheimilt að veita slíkt fjármagn úr opinberum sjóðum síðar en átta vikum fyrir kjördag. Er þetta gert í þeim tilgangi að ekki megi efast um tilgang fjárveitinga, að gæta jafnræðis milli móttakenda hins opinbera fjármagns úr hendi ráðherra og loks til að takmarka misvægi aðstæðna frambjóðenda til Alþingis.

Frú forseti. Í aðdraganda síðustu þingkosninga fóru ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ríðandi um héruð með stórkostleg loforð um að byggja þyrluskýli, að veita fjármagn til nemendagarða, að opna geðdeildir og þar fram eftir götunum. Allt þetta sem ég hef nefnt hér eru t.d. slík mannvirki og slíkar framkvæmdir að það er óumdeilt að slíkar fjárveitingar þarf að ákveða hér, innan veggja Alþingis, en ekki á skrifstofu ráðherra hverju sinni. Þetta er ekki skúffufé ráðherra, mörg hundruð milljóna króna stuðningur og jafnvel milljarða kostnaður. Það er ekki í boði að ráðherrar fari ríðandi um héruð með innihaldslaus loforð sín af því að þeir hafa ekki fjárveitingavaldið, þeir hafa það ekki. Það er Alþingi sem hefur fjárveitingavald. Með þessu eru ráðherrar að beita blekkingum og þeir gerðust jafnvel svo grófir að láta nafngreina sig og segja að þeir væru persónulega að úthluta einhverjum fjármunum. Þetta var mjög áberandi í tíð síðustu ríkisstjórnar og því miður er farið að örla á því aftur við upphaf starfs þessarar ríkisstjórnar að ráðherrar stilli sér upp eins og þeir séu að gefa eigin fjármuni. Svo er auðvitað ekki, frú forseti, þetta eru fjármunir skattgreiðenda á Íslandi. Það er ekki lýðræðislegt að ráðherra einn og sér taki ákvörðun um slíka úthlutun eða lofi jafnvel slíkri úthlutun sem hann hefur ekki færi á að lofa vegna þess að fjárveitingavaldið er hér hjá Alþingi.

Frú forseti. Við verðum að koma í veg fyrir þennan óskunda. Fyrir síðustu kosningar voru gerðar breytingar á kosningalögum þess efnis að almennir þingmenn hér, sem mögulega eru í framboði í gríðarlega stórum kjördæmum, gætu ekki nýtt starfskostnað þingmanna til þess að greiða fyrir slíkar ferðir. Tekið var fyrir það. Það þótti ósköp eðlilegt og voru greidd atkvæði um það hér í þingsal en meiri hlutinn passaði sig á því að láta þær reglur ekki gilda um ráðherra. Þeir fengu áfram að nýta fjármuni ráðuneyta sinna til að fara ríðandi um héruð til að lofa þyrluskýlum, nemendagörðum, geðspítölum og þar fram eftir götunum, á kostnað sömu skattgreiðenda og það þótti ótækt að þingmenn gerðu. Mögulega er það rétt að þingmenn borgi bara sjálfir úr eigin vasa fyrir slíkt. En við skulum samt muna það að þingmenn eru hér í vinnu fyrir almenning og almenningur á heimtingu á því að þingmenn ferðist um landið og kynni sér það sem almenningur býr við, það sem þarf að gera, það sem betur má fara og hlusta á raddir fólks. Það er ekki nóg að taka upp símtólið, það þarf að hitta fólk, það þarf að skoða aðstæður og það er skylda þingmanna að fara og gera slíkt á vinnutíma og í sínum frítíma en það er ekki í boði að ráðherrar skundi um héruð með loforð sem þeir geta ekki staðið við. Það er ólýðræðislegt að gera það með þeim hætti sem birtist hér í aðdraganda kosninga.

Að þessu sögðu legg ég til að þetta frumvarp verði sent inn til efnahags- og viðskiptanefndar og vænti ég þess að allir þingmenn, bæði í meiri og minni hluta, sjái að hér er stórt lýðræðisskref sem þarf að passa að njóti framgangs.