Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

stjórn fiskveiða.

73. mál
[12:54]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Flutningsmenn ásamt mér eru Ásthildur Lóa Þórisdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson, öll þingmenn fyrir Flokk fólksins. Í 1. gr. segir eftirfarandi, þ.e. um lög um stjórn fiskveiða:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

Þrátt fyrir önnur ákvæði þessara laga er öllum þeim íslenskum ríkisborgurum sem hafa tilskilin réttindi til skipstjórnar og vélstjórnar, ef þess er krafist vegna stærðar vélar viðkomandi báts, heimilt að stunda fiskveiðar á eigin bát með fjórum sjálfvirkum handfærarúllum. Báturinn skal vera undir 10 metrum að lengd. Báturinn skal hafa viðurkennt haffæri. Á hverjum bát mega vera tveir menn í áhöfn og er hámarksfjöldi sjálfvirkra rúlla þá fjórar rúllur á bát. Að fimm árum loknum skal skoðuð reynslan af þessum veiðum með tilliti til þess hvort setja eigi viðbótartakmarkanir sem taki eingöngu til veiðisvæða bátanna og fjölda veiðidaga. Veiðar þessara báta eru ekki reiknaðar til aflamarks og hafa ekki áhrif á heildarúthlutun aflamarks til annarra fiskiskipa.“

Í 2. gr. er kveðið á um að lögin skuli þegar öðlast gildi.

Frumvarp þetta var upphaflega lagt fram af Guðjóni Arnari Kristjánssyni, fyrrverandi formanni Frjálslynda flokksins, á 132., 133., 135. og 136. löggjafarþingi. Er það nú endurflutt lítillega breytt.

Guðjón Arnar barðist fyrir því árum saman að almenningur fengi tækifæri til að stunda frjálsar handfæraveiðar. Sú barátta stuðlaði m.a. að því að opnað var á strandveiðar fyrir rúmum áratug. Strandveiðarnar hafa skilað sjávarbyggðum miklu, en strandveiðikerfið er eigi að síður mörgum annmörkum háð. Aðeins má veiða ákveðið marga daga í mánuði og aðeins á ákveðnum vikudögum. Þá er potturinn lítill og klárast reglulega áður en strandveiðitímabilinu lýkur, með þeim afleiðingum að margir ná ekki að fullnýta veiðirétt sinn. Þess má einnig geta að hæstv. sjávarútvegsráðherra er þegar búinn að skerða pottinn, svokallaðan pott sem strandveiðimenn veiða úr, sem var nú lítill fyrir, um 1.500 tonn og var það eitt fyrsta embættisverk ráðherra í embætti þann 23. desember sl.

Flokkur fólksins hefur ávallt stutt frjálsar handfæraveiðar. Mikilvægt er að endurreisa rétt íbúa sjávarbyggðanna til að nýta sjávarauðlindina á þann hátt að fjölskyldur geti lifað af fiskveiðum. Öflug smábátaútgerð hleypir nýju lífi í sjávarbyggðirnar og verður forsenda enn fjölbreyttara atvinnulífs og mannlífs. Það heldur landinu öllu í byggð og er þjóðhagslega hagkvæmt. Frelsi til handfæraveiða er skref til sátta í deilum um sjávarútvegsmál, sem hafa áratugum saman skaðað tiltrú almennings á stjórnkerfið og stjórnmálin.

Það er kominn tími til að við leyfum þessu litla frumvarpi að verða að lögum. Það væri gott skref til sátta fyrir Alþingi Íslendinga í deilu sem staðið hefur yfir áratugum saman, sem hefur varað í áratugi. Má m.a. benda á að gerð var bíómynd fyrir 20 árum sem hét Hafið og kom hún af stað mikilli umræðu um kvótakerfið. Í febrúarmánuði voru svo sýndir frábærir þættir sem heita Verbúðin og sköpuðu mikla umræðu í samfélaginu um það óréttlæti og þau rangindi sem kvótakerfið og stjórn fiskveiða hefur verið áratugum saman, og hvers konar hernaður það er gegn byggðum landsins og hreinlega svik stjórnvalda við almenning í landinu og sérstaklega íbúa landsbyggðarinnar. Af þeim sökum er þetta frumvarp um frjálsar handfæraveiðar lagt fram að nýju með þeim skilyrðum sem þar eru tilgreind.

Þess má geta að handfæraveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi frá landnámi og Íslendingar voru árhundruðum saman bændur sem stunduðu sjávarútveg úr verum. Lög Íslands bera þess merki. Í Jónsbók, sem var löggilt árið 1282, segir í öðrum kapítula, með leyfi forseta: „Allir menn eigu at veiða fyrir utan netlög at ósekju.“

Þetta hefur verið grundvallarregla í íslenskum rétti árhundruðum saman og er enn, þ.e. að allir menn og konur eigi rétt á veiði fyrir utan netlög án takmarkana. Landsmenn sóttu í hafalmenninga utan netlaga eftir föngum án takmarkana af hálfu stjórnvalda uns sett voru lög á ofanverðri 19. öld sem veittu heimild til að takmarka og banna notkun einstakra veiðarfæra á tilteknum svæðum. Í kjölfarið komu heimildir til að friða einstök svæði fyrir veiðum. Síðar voru lögleidd ákvæði um að einstakar veiðar skyldu háðar leyfi sjávarútvegsráðherra. Jafnt og þétt jukust síðan takmarkanir og skerðingar sem komið var á í fiskveiðum.

Með útfærslu landhelginnar í 200 sjómílur árið 1975 sköpuðust síðan forsendur fyrir tiltölulega fullkominni stjórnun. Sama ár birti Hafrannsóknastofnun skýrslu þar sem fram kom að þorskstofninn væri ofveiddur og takmarka þyrfti veiðar verulega. Með lögum nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, fékk ráðherra heimild til að ákveða hámark þess afla sem veiða mátti af hverri fisktegund á tilteknu tímabili og á árinu 1977 voru í fyrsta sinn, á grundvelli tillagna Hafrannsóknastofnunar, innleiddar almennar takmarkanir á þorskveiðum. Þessi aðferð við fiskveiðistjórnun byggðist fyrst og fremst á sóknartakmörkunum, var kölluð skrapdagakerfi og var óbreytt við lýði fram til ársins 1983. Þá þótti sýnt að með kerfinu næðust engan veginn þau markmið sem stefnt var að til að afstýra ofveiði. Þá hafði fiskveiðiflotinn stækkað verulega með tilheyrandi ofveiði úr stofnum sem sættu engum takmörkunum og er þetta aðdragandinn að kvótakerfinu í dag.

Markmiðið með kvótakerfinu, hin málefnalegu rök fyrir kvótakerfinu, eru þau að draga úr ofveiði eins og hér hefur verið rakið. Það hefur öll löggjöf gert frá því að Jónsbókrákvæðið var sett árið 1282, þ.e. að takmarka veiðar ef um ofveiði er að ræða. Það eru einu málefnalegu rökin fyrir að takmarka aðgang að auðlindinni. Önnur rök eru ekki fyrir hendi. Það að gefa handfæraveiðar frjálsar mun ekki leiða til þess að fiskstofnum verði ógnað við Ísland. Málefnalegu rökin, sem ég hef rakið hér, eru ekki fyrir hendi. Það er ekki hægt að eyða fiskstofnum á Íslandi með öngli og á krókaveiðum, það er bara ekki hægt. Þó að landsmenn myndu reyna eins og þeir gætu myndi það aldrei nokkurn tímann takast og þess vegna á að gefa handfæraveiðar frjálsar.

Undan ströndum Íslands eru ein gjöfulustu fiskimið í heimi. Þá auðlind hafa Íslendingar nýtt frá því að land byggðist. Íbúar sjávarbyggðanna eiga tilkall til fiskimiðanna undan ströndum landsins. Frá landnámi hefur byggð þar byggst á fiskveiðum og landbúnaði. Nýjar atvinnugreinar, fiskeldi og ferðaþjónusta, eru árstíðabundin aukabúgrein. Takmarkanir stjórnvalda á veiðum íbúanna undan ströndum sjávarbyggðanna eru skerðing á búseturétti þeirra og eru það rök fyrir frjálsum handfæraveiðum. Takmarkanir á atvinnufrelsi þurfa að byggjast á sterkum rökum og ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Aflahámark sem takmarkar fiskveiðar á eingöngu að ná til þeirra veiða sem ógna fiskstofnum, ekki til veiða sem ógna þeim ekki. Handfæraveiðar ógna ekki fiskstofnum eins og áður sagði.

Atvinnulíf er grundvöllur allrar byggðar og á landsbyggðinni eru fiskveiðar og landbúnaður grundvöllur byggðarinnar. Ferðaþjónusta er vissulega góð aukabúgrein en hún er árstíðabundin eins og áður sagði. Þetta tengist líka atriði sem lýtur að jöfnum búsetuskilyrðum í landinu og er grundvallarréttur allra landsmanna. Val á búsetu á landsbyggðinni á ekki að vera val um skerta þjónustu eða skert búsetuskilyrði eða lífsgæði. Skerðing á rétti til handfæraveiða er slík skerðing, er skerðing á lífsgæðum. Sagt er að leiðin til heljar sé vörðuð góðum áformum. Kvótakerfið, sem komið var á til bráðabirgða árið 1984, er slík varða fyrir margar sjávarbyggðir. Aflamark í þorski var þá lækkað í 220.000 tonn til að byggja þorskstofninn upp en það eru sömu veiðiheimildir og í dag. Árangurinn er enginn. Það er enginn árangur af núverandi kvótakerfi. Tölurnar sanna það. Örfáir útgerðarmenn náðu með tímanum til sín mestum hluta aflamarksins og skeyttu litlu um sjávarbyggðirnar. Kvótakerfið er óbreytt og sjávarbyggðum heldur áfram að hnigna og íbúum fækkar. Sú þróun mun halda áfram verði nýtingarréttur sjávarbyggðanna ekki viðurkenndur. Það er viðurkenning á atvinnufrelsi og búseturétti í landinu. Mikilvægt er að endurreisa rétt íbúa sjávarbyggðanna til að nýta sjávarauðlindina á þann hátt að fjölskyldur geti lifað af fiskveiðum. Öflug smábátaútgerð mun hleypa nýju lífi í sjávarbyggðirnar og verða forsenda enn fjölbreyttara atvinnulífs og mannlífs. Það heldur landinu öllu í byggð og er þjóðhagslega hagkvæmt.

Flokkur fólksins berst þess vegna fyrir því að íbúar sjávarbyggðanna og þjóðin fái að njóta auðlinda sinna. Við viljum nýtingarstefnu um fiskimiðin þar sem auðlindin er sameign þjóðarinnar en ekki einkaeign fárra útvalinna. Við beitum okkur fyrir því með þessu frumvarpi að íbúar sjávarbyggðanna njóti þessa aukna réttar sem er svo sjálfsagður og er grundvöllur búsetu. Þetta er sannarlega skref til sátta í sjávarútvegsmálum eins og áður hefur verið bent á.

Strandveiðar, sem komið var á fyrir um áratug, hafa reynst vel fyrir hinar dreifðu sjávarbyggðir þó að litlar séu. Strandveiðar valda minnstu raski í hafrýminu, hafa minnsta kolefnissporið og hámarka verðmæti aflans. Smábátaútgerð hefur spornað gegn samþjöppun og komið í veg fyrir að fjölbreyttur sjávarútvegur legðist af á landsbyggðinni. En með áframhaldandi stefnu stjórnvalda mun það ekki verða. Það er alveg ljóst að núverandi kerfi strandveiða — það er einfaldlega ekki nógu mikil umsetning, ekki nógu miklar tekjur af þessu, fjölskyldur í landinu geta ekki lifað af slíkum veiðum á ársgrundvelli. Við sjáum þetta líka í fjárfestingu í bátum sem er nánast engin. Þetta eru litlir bátar og það er engin endurnýjun í bátaflotanum. Aðgengi að þessum veiðum er takmarkað við 48 daga á ári, 12 daga mánaðarins, og það er ljóst að ekki er aðgangur fyrir ungt fólk sem vill fara í útgerð og það mun væntanlega flytja til Noregs. Ég get tekið sem dæmi að í tímaritinu Fisk og Kyst í Noregi er fjallað um stóraukinn hóp ungs fólks sem sækir í þessa atvinnugrein. Það er eitthvað annað en á Íslandi. Í Noregi er því tekið fagnandi. Það er vegna þess að stuðlað hefur verið að því að fá aukna endurnýjun, að nýjar kynslóðir geti tekið þátt í fiskveiðum og byggt lífsviðurværi sitt á strandveiðum. Það er það sem Ísland á að gera og það er markmið þessa frumvarps.

Baráttan fyrir frjálsum strandveiðum er réttindabarátta, barátta fyrir atvinnufrelsi og búseturétti. Þær takmarkanir sem eru á atvinnufrelsi mega ekki ganga lengra en nauðsyn krefur og það að takmarka strandveiðar og hafa þær ekki frjálsar — ég vil meina að það sé ómálefnaleg takmörkun á atvinnufrelsi sem stenst nánast ekki stjórnarskrá. Af hverju er það? Jú, það er vegna þess að veiðar á handfæri ógna ekki fiskstofnum við landið. Þær gera það ekki. Ef einhver ætlar að koma upp í pontu og halda því fram þá verði honum að góðu. Það væri mjög fróðlegt að heyra viðkomandi færa rök fyrir því að veiðar á öngul, veiðar á krók, ógni fiskstofnum á einum gjöfulustu fiskimiðum í heimi. Ég skora þá á hinn sama að prófa að stunda þær veiðar. Þetta er erfið vinna og þarf mikla þrautseigju og mikið úthald, oft í erfiðum veðrum, þetta er ekki fyrir hvern sem er, þetta eru veiðar sem byggjast á hæfileika einstaklinganna og engu öðru.

Þessi barátta fyrir jöfnum búseturétti og rétti íbúa sjávarbyggðanna á landsbyggðinni mun halda áfram. Þetta frumvarp hér er bara lítið skref í þá átt. Byggð í landinu — þetta er spurning um það hvort við ætlum að byggja þetta land allt eða eingöngu hér á höfuðborgarsvæðinu, að það verði líka byggt í dreifðum byggðum eins og á Vestfjörðum, Austfjörðum og í kringum allt land. Þetta er spurning um að fólk fái að standa á eigin fótum en ekki þiggja alla ölmusu frá höfuðborgarsvæðinu eða Reykjavík, þar sem verið er að kría út einstaka störf, opinber störf, og reyna að redda einhverju hingað og þangað. Þetta er spurning um að setja völdin aftur til fólksins, aftur heim í hérað, og þessi réttur verður einungis tryggður með eflingu strandveiða.

Ég vísa þessu máli til hv. atvinnuveganefndar og vænti þess að það fái góða meðferð og verði samþykkt sem lög frá Alþingi síðar á þessu þingi.