Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

stjórn fiskveiða.

73. mál
[13:10]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir flutning frumvarpsins. Það eru margar spurningar sem vakna og eiginlega fleiri en ég kem fyrir hérna á þessum tveimur mínútum. Eins og segir hérna í greinargerðinni var frumvarpið upphaflega lagt fram af Guðjóni heitnum Arnari Kristjánssyni. Hans barátta leiddi til og stuðlaði að því að opnað var á strandveiðar fyrir rúmum áratug síðan. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja: Hafa flutningsmenn eitthvað skoðað áhrif frumvarpsins á það frábæra kerfi sem ég styð innilega, strandveiðarnar? Flutningsmaður talar um að þetta frumvarp verði til þess að hægt verði að vera með útgerð sem fjölskylda getur stundað. Hér á að fara á bát sem er ekki meira en 10 metrar. Í umhverfis- og samgöngunefnd er ég framsögumaður frumvarps um áhafnir skipa sem fjallar mikið um öryggi sjómanna. Það væri fróðlegt að heyra hvernig það öryggi er tryggt í þessu.

Síðan langar mig að spyrja: Ógnar strandveiðifyrirkomulagið fiskstofnunum? Svo langar mig líka að spyrja hvernig flutningsmenn hugsa sér að reka þetta kerfi samhliða strandveiðikerfinu án þess að það verði takmarkanir á aflaheimildum.