Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

stjórn fiskveiða.

73. mál
[13:12]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef verið að rannsaka uppruna núverandi strandveiðikerfis og verið að reyna að finna skjölin sem liggja á bak við. Ég hef meira að segja lesið lögfræðiálit sem kom í kjölfar þess og laut að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þegar Ísland var dæmt sagði mannréttindanefndin að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi væri brot á jafnræðisreglu mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hv. þingmaður minnist á 10 metra. Við höfðum 10 metra inni, ekki undir 10 metrum. Í gamla frumvarpinu voru það 30 brúttórúmlestir. Við megum ekki rugla því saman við 30 tonn, þetta er annað hugtak. Þetta er spurning um 10 metra eða jafnvel 12, 10 metrar ættu að vera nóg. Varðandi öryggi segir í lögunum að báturinn skuli hafa viðurkennd haffæri. Smábátarnir í dag eru yfirleitt undir 10 metrum. Hvað varðar haffæri og öryggismál þá er það að sjálfsögðu tryggt. Þetta yrðu að vera skip sem eru með viðurkennd haffærisskírteini þannig að öryggið ætti alveg fyrir hendi í núverandi kerfi.

Varðandi núverandi kerfi, 48 daga kerfið, sé ég fyrir mér að með því að gefa strandveiðar algerlega frjálsar myndi núverandi kerfi leggjast af með tíð og tíma. Ég tel reyndar að það myndi leggjast af með það sama. Það er alger óþarfi að hafa 48 daga þegar við erum búin að gefa frjálsar strandveiðar. Strandveiðikerfið í dag byggist á frelsi, það byggist á því að einstaklingarnir sjálfir fái sér bát og þetta ætti að vera þannig að þeir ættu að eiga bátana sjálfir. Stórútgerðin getur ekki farið að kaupa 50 báta og farið að gera menn út. Það er grundvallaratriði. Þetta ógnar ekki fiskstofnum en þetta kemur í staðinn fyrir núverandi kerfi.