Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

stjórn fiskveiða.

73. mál
[13:14]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta ætti að koma í stað núverandi strandveiðikerfis. Á síðasta ári voru veidd um 11.000 tonn og við erum með ráðgjöf upp á 220.000 tonn, eins og hv. þingmaður kom inn á og fullyrti að enginn árangur hefði orðið af kvótakerfinu sem var sett á fyrir 40 árum. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig liti dæmið út núna hefðu ekki verið sett á þær takmarkanir fyrir 40 árum, ef ráðgjöfin er enn þá 220.000 tonn? Hefði kvótinn ekki verið settur á 1983, hvernig liti fiskstofninn út núna, ef enginn árangur hefur orðið af kvótakerfinu, sem við getum tekið aðra umræðu um? Það eru þá komnar tvær spurningar um þetta.

Síðan finnst mér mjög undarlegt að ekki sé verið að horfa á að við eflum frekar strandveiðikerfið sem hefur skilað sjávarbyggðum miklu og eru mjög mikilvægar fyrir byggðir landsins. Í strandveiðikerfinu eru stærri bátar, þar er hægt að notast við stærri báta, öruggari báta, og ef við færum að horfa til minni báta erum við náttúrlega farin að ógna svolítið örygginu. Við erum að tala um að 9 metra bátur með tveimur mönnum geti gert út allt árið um kring. Þá finnst mér vanta inn í þetta að við horfum svolítið til þess hvað þetta þýðir, af því að við höfum núverandi kerfi, við höfum þessa ráðgjöf og höfum ákveðið kvótakerfi, þá skil ég ekki hvernig er hægt að afmarka þessa veiðar ef við ætlum að hleypa þeim frjálsum allt árið um kring.