Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

stjórn fiskveiða.

73. mál
[13:28]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar og ég benti á í framsögu minni er hér um mjög umhverfisvænar veiðar að ræða. Það er lítið kolefnisspor, mjög lítið. Af hverju er það? Jú, það er siglt á litlum bát út á miðin, slökkt á vélunum og rafmagnsrúllur settar í gang. Sjálf veiðin skilur ekki eftir sig kolefnisspor. Rúllurnar eru rafmagnsrúllur og svo þegar búið er að veiða er siglt í land aftur. Það er ekki hægt að finna umhverfisvænni veiðar þannig að ríkisstjórn sem vill vera best í heimi í loftslagsmálum þegar kemur að kolefnisspori, ætti að gefa þessar veiðar frjálsar. Annað stenst einfaldlega ekki skoðun út frá umhverfissjónarmiðum.

Byggðasjónarmiðin eru alveg skýr og þau eru að búseturéttur á landsbyggðinni, í sjávarbyggðunum byggist á því að geta sótt á miðin utan netlaga. Jónsbókarákvæðið frá 1282 er alveg skýrt hvað það varðar. Ég fór yfir sögu takmarkana á veiðum hér áðan. Þær byggjast allar á því að það er verið friða einstök svæði fyrir veiðum, og þá er ég að tala um togveiðar, þær byggjast allar á því að þorskstofninn sé ofveiddur og það þurfi takmarka þorskveiðar og afstýra ofveiði. Það er ekki hægt að ofveiða þorskstofninn við Ísland, fiskstofna við Ísland með krókaveiðum. Það er ekki hægt. Það að einstaklingar fái fjórar sjálfvirkar rúllur, handfærarúllur, á bát og ætli að stunda veiðar með því frjálst, í krafti atvinnufrelsis síns, mun ekki ógna fiskstofnum.

Rökin fyrir strandveiðunum eru alveg skýr. En rökin fyrir því að takmarka þær eru ekki málefnaleg, þau byggjast ekki á vernd fiskstofna, svo það sé alveg skýrt. Það sem hefur gerst með kvótakerfinu er að það er orðið til eins konar kerfi sem snýst um að verja kerfið. Það er það sem þetta snýst allt orðið um. Ég tók þátt í umræðum um kvótasetningu á sandkola og sæbjúgum og ef maður les greinargerðina fjallar hún ekkert um friðun eða vernd sandkola. Nei, nei, hún fjallar um að það gekk svolítið illa í veiðinni hjá fyrirtækjunum. Þess vegna átti að kvótasetja það. Það voru rökin. Það voru rökin sem voru sett á blað. Það var ekkert sett á blað í greinargerðinni, og ég skora á alla að lesa þá greinargerð, um að sandkoli væri hættu. Við getum líka tekið grásleppuna. Það var umræða um hana á síðasta þingi skilst mér, áður en ég kom til starfa á Alþingi. Það hefur ekkert verið vandamál núna með grásleppuna en samt er krafa um að kvótasetja hana. Það getur vel verið að það séu ákveðin vandamál varðandi lagnir og annað slíkt. Þær eru m.a. í netlögum sem lúta að eignarrétti einstaklinga. En þetta snýst orðið mikið um að verja núverandi kerfi. Það að gefa bara 12 veiðidaga í mánuði, 48 daga á ári til að veiða, sem klárast oft strax, mjög fljótlega á veiðitímabilinu og áður en því lýkur, er einfaldlega engan veginn nægjanlegt, engan veginn. Það er allt of lítið frelsi og fjölskyldur í dag geta ekki lifað á þessum veiðum á ársgrundvelli. Það er ekki hægt. Meira að segja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi líta ekki á þetta sem alvöruatvinnugrein. Það hefur komið fram í umsögn þeirra. Ef maður skoðar tölurnar, fjárfestingar í greininni, þá er verið að halda þessu úti sem einhverjum bita til að friða fólk. Ég held því fram að þetta sé bara blekking.

Ég ber mikla virðingu fyrir strandveiðimönnum í núverandi kerfi. Það er bara ekki nógu mikið frelsi, það er ekki nógu mikið atvinnufrelsi, það eru ekki nógu miklar tekjur. Þeir eiga að fá að veiða allan ársins hring. Ég hef fengið upplýsingar hjá mönnum sem eru í strandveiðum og þeir eru að leigja kvóta á 330 kr. kílóið, selja síðan á 365 kr. kílóið og fá 35 kall. Það er kannski aðeins meira út af ýsu og öðru slíku sem kemur að landi. En það eru líka leiguliðar í strandveiðunum sem eru að kaupa sér kvóta til að reyna að bjarga sér. Það að það séu leiguliðar í strandveiðikerfinu á þessum veiðum er algjört hneyksli. Það á að gefa þetta frjálst. Það myndi gera gríðarlega mikið gagn fyrir sjávarbyggðirnar. Þeir sem styðja þetta frumvarp styðja sjávarbyggðirnar. Þeir sem eru á móti þessu frumvarpi eru á móti sjávarbyggðunum. Það er algerlega kristaltært. Út á það gengur þetta og ekkert annað. Einhverjir þingmenn hafi komið upp í andsvör og haldið öðru fram en það er einfaldlega ekki rétt. Hræsnin í kringum þetta kvótakerfi er algerlega með ólíkindum og það skal enginn efast um réttmæti þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram, réttmæti þeirrar umfjöllunar sem kom í kjölfar Verbúðarinnar og réttmæti þeirrar gagnrýni sem kom í kjölfar kvikmyndarinnar Hafsins sem kom út fyrir 21 ári. Þessi mynd var frumsýnd árið 2001. Núna er aftur verið að fjalla um þetta tímabil og þá á grundvelli eins konar sagnfræði. Verbúðin er frábærir þættir og þeir sýna svart á hvítu hvað var í gangi. Þeir sem voru næst lagasetningarvaldinu, þeir sem voru næst pólitíkinni, næst Alþingi Íslendinga, högnuðust á þessu og um það snýst þetta. Kvótakerfið snýst um að búa til verðmæti úr kvótanum, framseljanlegum kvóta, það er hægt að veðsetja hann. Löggjafinn, lagasetningarvaldið er að búa til verðmæti sem eru óháð veiðunum sjálfum.

Hérna er lítið frumvarp sem er ætlað að virða þau sjálfsögðu mannréttindi að allir eigi rétt á veiði utan netlaga með handfærarúllum, með frjálsum veiðum. Það eru engin takmörk sem eiga að vera á þessu nema stærð bátsins og svo loftslag og veðurfar sem hefur mikil áhrif og takmarkar veiðarnar. Þetta er erfið vinna, mjög erfið vinna, og hún er ekki öllum fær. Það eru ekki allir sem eru með veiðieðli í sér og hafa getu til að stunda þessar veiðar. Ég bendi aftur á að í Noregi er miklu betra aðgengi fyrir ungt fólk að veiðum og mikil fjölgun á ungu fólki í veiðum. Ungt fólk á Íslandi mun fara til Noregs til að stunda veiðar og það flytur líka af landi brott af öðrum orsökum. Þetta er eina vonin fyrir sjávarbyggðirnar og landsbyggðina, að gefa þessar veiðar frjálsar svo að við getum fengið rétt okkar til baka.