152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

tekjustofnar sveitarfélaga.

78. mál
[14:41]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í raun lætur þetta frumvarp ekki mikið yfir sér en er þó stórmál því að ef við skoðum tekjustofna sveitarfélaga eru þeir þrír. Það er í fyrsta lagi fasteignaskattur, í öðru lagi úthlutun framlaga til sveitarfélaga, þ.e. jöfnunarsjóður, og í þriðja lagi útsvar. Hér er lagt til að stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skuli miðast við flatarmál þeirra talið í fermetrum. Enn fremur segir að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða mismunandi fjárhæðir skatts á hvern fermetra flatarmáls fasteigna í nokkrum gjaldflokkum sem eru hér fimm. Þá langar mig til að spyrja hvort það sé meining flutningsmanna þessa frumvarps að hvert og eitt sveitarfélag setjist niður og ákveði þann gjaldstofn sem það ætlar að leggja á sína íbúa eða fasteignir til fasteignaskatts, hvort það sé eðlilegt að hvert og eitt sveitarfélag sé þannig að hlutast til um það og hvernig eitt sveitarfélag geti gætt meðalhófs í þeim efnum. Í núgildandi lögum segir að leggja skuli árlega fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati og stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skuli vera fasteignamat þeirra. Það er í raun ákveðið, sveitarfélög fá álagningarstofninn til sín tilbúinn. Í lögunum segir að sveitarfélag ákveði skatthlutfall sem má vera allt að 0,5% af fasteignamati á íbúðir, allt að, þannig að hvert sveitarfélag hefur í hendi sér að geta farið upp í þann skatt en ekki umfram það nema með sérstakri álagningu. Þau geta líka valið að vera með 0,2 eins og er t.d. hérna í Reykjavíkurborg. Hvernig í ósköpunum á þetta að vera eðlilegt innan þeirra sveitarfélaga sem í landinu eru?