152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga o.fl. .

60. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda, fjárhagsupplýsingar um einstaklinga. Með mér á málinu eru hv. þingmenn Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Í I. kafla frumvarpsins er breyting á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, en 15. gr. laganna orðist svo, ásamt fyrirsögn:

„Bann við miðlun upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga.

Vinnsla upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga, þ.m.t. vanskilaskráning og gerð lánshæfismats, í því skyni að miðla þeim til annarra, er bönnuð.“

Í 2. gr. II. kafla frumvarpsins kemur fram breyting á lögum um neytendalán, nr. 33/2013:

„Við 1. mgr. 10. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skal líta til upplýsinga um vanskil neytenda vegna tiltekinnar kröfu ef búið er að afskrá kröfuna af vanskilaskrá.“

Í 3. gr. III. kafla frumvarpsins er breyting á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016:

„Við 7. mgr. 22. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skal líta til upplýsinga um vanskil neytenda vegna tiltekinnar kröfu ef búið er að afskrá kröfuna af vanskilaskrá.“

Í 4. gr. segir einfaldlega að lög þessi öðlast þegar gildi.

Í greinargerð kemur fram að frumvarp þetta var lagt fram á 150. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Þrjár umsagnir bárust um frumvarpið á síðasta löggjafarþingi, frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Creditinfo og Persónuvernd. Hagsmunasamtök heimilanna lýstu yfir stuðningi við frumvarpið en haldið ykkur nú fast, virðulegi forseti, það kemur mjög á óvart að Creditinfo lýsti yfir andstöðu sinni. Hvers vegna skyldi það nú vera? Ég læt það aðeins liggja og held hérna áfram pínulitla stund og svo skal ég tukta það aðeins meira til. Persónuvernd tók hins vegar ekki afstöðu til efnis frumvarpsins en benti á að álitaefni tengd frumvarpinu væru til skoðunar innan stofnunarinnar. Það er náttúrlega í okkar valdi hér að fá að vita hvar málið er statt hjá Persónuvernd. Við tókum í gildi nýja persónuverndarlöggjöf sem hefur kostað alveg gríðarlega fyrirhöfn og fjármuni að hrinda í framkvæmd. Persónuvernd er orðin slík og þvílík að maður getur varla hringt í barnið sitt öðruvísi en að sýna kennitölu og senda mynd af sér. Það er í rauninni algerlega galið að fólki skuli vera stillt svo rosalega upp eins og raun ber vitni hér gagnvart þessum aðila, Creditinfo, sem hefur einn aðila sinnar tegundar heimildir í lögum til að selja persónulegar upplýsingar okkar, um okkar fjárhag, til þriðja aðila.

Aðgangur að lánsfjármagni er grunnforsenda þess að fólk geti komið sér úr klóm fátæktarinnar. Ef fólk nær að losna út af leigumarkaðnum og komast í eigin fasteign fær það loks ráðrúm til að ná upp eignamyndun. Í stað þess að greiða leigu greiðir fólk afborganir af lánum, sem í mörgum tilfellum eru jafnvel lægri en leigugreiðslur fyrir sambærilegt húsnæði, oft miklum mun lægri. Það eiga þó ekki allir jafn greiðan aðgang að lánsfjármagni. Neytendur þurfa að standast lánshæfis- og greiðslumat áður en lánastofnanir veita þeim lán. Greiðslumatið fer þannig fram að lagt er mat á reglulegar tekjur og fyrirhuguð útgjöld lántakanda og áætlað hver greiðslugeta hans er. Lánshæfismatið er m.a. byggt á viðskiptasögu aðila á milli eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust.

Þetta er þvílík njósnastarfsemi að manni hrýs hugur, virðulegi forseti, við því að þannig skuli það vera á árinu 2022. Það er með ólíkindum að við sem erum alltaf að tala um persónuvernd og berjast við að tryggja persónuvernd skulum virkilega vera að bjóða upp á slíkt. Fólk sem á jafnvel fullt af peningum, á kannski tugi milljóna, jafnvel hundruð milljóna en af því að einhvers staðar á leiðinni hefur það orðið gjaldþrota eða komist á vanskilaskrá þá fer það bara algjörlega út, takk fyrir. Það er ekki séns að það geti tekið lán. Nei, vinur minn, þú fórst á vanskilaskrá, takk fyrir. Creditinfo er búið að sýna fram á að þú ert ekki bær til þess að taka lán. Við getum ekki treyst því að þú með þínar hundruð milljónir getir borgað af 20 millj. kr. láni, bara ekki að ræða það.

Sífellt berast fréttir af fólki sem getur ekki fengið lán frá lánastofnunum vegna niðurstöðu lánshæfismats. Margir fá synjun um fyrirgreiðslu þrátt fyrir góða greiðslugetu, eins og ég var að benda á, og án þess að lán sé í vanskilum. Fólk fær gjarnan þá skýringu að vegna þess að þriðji aðili hafi gefið því of lága einkunn geti lánastofnunin ekki veitt því lán. Slík einkunnagjöf er svokallað persónusnið.

Það er líka vert að taka það fram að ég veit ekki hversu mörg belti og hversu mörg axlabönd og flotgalla og súrefniskúta á að setja á lánveitendur, það er með hreinum ólíkindum. Við fáum ekki lán, ekki einu sinni hjá okkar eigin lífeyrissjóði þar sem við höfum verið lögþvinguð til að greiða í lífeyrissjóð og eigum ákveðin réttindi til að taka lán, fasteignalán, takk fyrir. Þá ertu líka að leggja eignina þína að veði. Er það ekki nóg? Er ekki nóg að þú skuli leggja undir í rauninni það dýrmætasta sem þú ert að reyna að eignast, sem er þakið sem þú ert að reyna að reisa yfir höfuðið á þér? Hvað þurfa þessir aðilar, hvað þurfa þessir lánardrottnar meira? Hvað hirtu þeir mörg þúsund heimili eftir síðasta efnahagshrun og hvað gerðu þeir við lánasöfnin? Keyptu þau á slikk, en rukkuðu þau inn 100%. Fengu margfalt, margfalt til baka það sem þeir höfðu áður lánað út af því að þeir eru alltaf verndaðir í öllu. En það að eitt fyrirtæki á markaði skuli geta unnið með og valsað um með persónuupplýsingar um okkur og okkar fjárhagsstöðu og komið í veg fyrir það að við getum komið okkur þaki yfir höfuðið og komið í veg fyrir það að við, sem erum að greiða 250.000–300.000 kr. á mánuði í leigu, gætum hugsanlega verið að greiða 170.000–180.000 kr. af láni — það er með ólíkindum að eitt fyrirtæki skuli vera í rauninni að vinna slíkar upplýsingar og miðla þeim til þriðja aðila og fá fullt af peningum fyrir. Þetta er bara bisness, virðulegi forseti, hreinn og klár bisness þar sem þeir velta milljörðum á ári. Þetta er ósanngjarnt. Þetta er óréttlátt og við í Flokki fólksins teljum þetta hreint og klárt og skýrt brot á persónuverndarlöggjöfinni. Það er kominn tími til að Persónuvernd fari að benda á hvar þetta mál er statt í meðförum þeirra. Hvernig stendur á því að Persónuvernd er að veita þessum aðila frjálsan aðgang að okkur neytendum án þess í rauninni að koma með svo mikið sem eitt einasta tíst eða athugasemd um það hversu ósanngjarnt þetta er?

Mig langar að segja litla sögu, virðulegi forseti, bara svona í lokin. Ég ætla ekki að fara að lesa alla greinargerðina upp, ég bendi bara öllum á að þessi mál má finna inni á alþingi.is, á okkar vef, sem er mjög aðgengilegur og ég hvet fólk til að kynna sér vefinn okkar betur vegna þess að það er gaman að flakka um hann. Það er hægt að velja þar stjórnmálaflokkana. Þar getum við valið þingmennina, þar getum við skoðað hvað þeir hafa verið að gera og hverju þeir hafa áorkað og hvernig gengur hjá þeim í vinnunni. Ég myndi gjarnan vilja benda ykkur á það. En það sem er daprast í þessu er hvernig einstaklingar hafa lent í þessu. Það eru ungir einstaklingar, mjög margir og jafnvel þeir sem hafa verið í neyslu og þurft að fjármagna næsta skammtinn sinn og þetta er fólkið sem og jafnvel bara unglingar sem hafa hreinlega stolist til þess að senda SMS og fá smálán. Þeir fá sér smálán með náttúrlega öllum þeim hryllingi og vanköntum sem því fylgir og ætti náttúrlega að vera búið að girða gjörsamlega fyrir allt slíkt því að þar er ekkert nema bara okur á okur ofan og í rauninni mannskemmandi fyrir alla þá sem lenda í þeirri gildru. Síðan eru það jafnvel einstaklingar sem hafa verið með greiðslukort og freistast til þess að kaupa kannski föt á börnin sín fyrir jólin og taka það á Visa rað, eins og þar stendur, og hafa svo ekki bolmagn til þess að greiða upp Visa-skuldina, einfaldlega vegna þess að þetta er fátækasta fólkið í landinu. Það eru alltaf fátækustu einstaklingarnir, sem hafa fæstu krónurnar á milli handanna, sem er vísað í dýrustu úrræðin til að reyna að bjarga sér. Þannig er Ísland í dag. Ung kona var að reyna að kaupa sér ódýra íbúð úti á landi fyrir sig og litla drenginn sinn. Hún var búin að greiða upp allar sínar skuldir við lánardrottna eða kortafyrirtækið sitt. Nei, hún fékk ekki greiðslumat. Nei, veistu, þú varst nefnilega komin á vanskilaskrá og skalt bíða í einhver ár í viðbót, kannski fjögur ár í viðbót. Þú verður að hanga í snörunni og bíða næstu fjögur ár í viðbót vegna þess að við teljum að þú sért frekar áhættusamur kostur fyrir lánveitenda að lána vegna þess að þú hefur ekki staðið þína plikt 100%. Það er ekki nóg að viðkomandi sé búinn að gera borðið sitt hvítt og hreint og greiða sínar skuldir. Nei, hann þarf að bíða lengur og það þarf að sanna það einhvern veginn að hann muni standa sína plikt í framtíðinni. Þetta er nú völvan sem er að spá þarna sem ég hef nú ekki alveg skilið. En hvað um það. Ég skora á Persónuvernd að gjöra svo vel að taka til hendinni og skoða löggjöfina um persónuvernd og um leið skora ég á þá að fella niður heimild Creditinfo til þess að vera með upplýsingar um okkar fjárhagslegu afkomu og selja þær til þriðja aðila.

Að lokum, hæstv. forseti, legg ég til að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar.