152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga o.fl. .

60. mál
[16:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil bara koma hingað upp og styðja þetta frumvarp heils hugar. Þetta er mjög þarft frumvarp og við verðum að horfa á að þarna er verið að hafa stóran hóp af fólki að féþúfu. Það er verið að láta fólk borga einkafyrirtæki fyrir upplýsingar sem bankarnir eiga sjálfir að hafa. Þeir eiga að sjá til þess að þeir sem hafa verið viðskiptavinir þeirra í fjölda ára þurfi ekki að fá frá þriðja aðila upplýsingar um það hvort viðkomandi geti fengið að vera í lánaviðskiptum til að kaupa sér íbúð, vegna þess að í flestum tilfellum þegar fólk er að kaupa sér íbúðir er það vegna þess að það er að reyna að losna út af leigumarkaðnum. Það að fá lán, íbúðalán, og borga kannski 100.000 kr. á mánuði og fara úr leigu upp á 200.000, 250.000 eða 300.000 kr. á mánuði er bara heilbrigð skynsemi en ekki eitthvað sem á að vera hægt að vísa í eitthvert greiðslumat um að einhver hafi áður lent í veikindum, slysum eða einhvern veginn lent á þann hátt að hann hefur lent tímabundið á vanskilaskrá, vegna þess að það virðist vera mjög erfitt að losna út af þessari blessuðu vanskilaskrá þegar maður er á annað borð kominn inn á hana. Ég spyr eins og hér hefur komið fram: Hvar er persónuverndin? Er ekki kominn tími til að Persónuvernd taki á þessu máli og stöðvi þessa ólöglegu starfsemi? Það er algjörlega óforsvaranlegt að láta einkaaðila stórgræða á þessu máli. Ég segi bara: Vonandi fer það í gegn og við stöðvum þessa ósvífni sem er þarna í gangi í eitt skipti fyrir öll.