152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

staðan í Úkraínu, munnleg skýrsla utanríkisráðherra. - Ein umræða.

[19:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því í seinni ræðu minni að þakka kærlega fyrir umræðuna hér í dag. Það er sterkur tónn og ákveðið þema sem birtist í ræðum sem mér þykir vænt um, ekki bara sem utanríkisráðherra heldur sem borgara í þessu landi. Hv. þm. Jakob Frímann Magnússon spurði sérstaklega um Miðnesheiði og hvort við værum að undirbúa móttöku stórs herliðs á Keflavíkurflugvelli. Svo er ekki heldur snýr þetta að gistiríkjastuðningi sem við höfum verið með í mjög langan tíma og er ákveðin kostnaðarhagkvæmni að byggja það þannig að við höfum rými fyrir þá þegar verið er að sinna loftrýmisgæslu. Loftrýmisgæsla og gistiríkjastuðningur eru ákveðin kjarnaatriði í þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu.

Hér var líka spurt hvort við værum að gera nóg og þá get ég spurt á móti: Hvað er nóg? Ef einhver hefði svarið við því hvað væri nóg þá værum við á betri stað en við erum núna. En við erum að gera mikið og við munum gera meira. Mannúðaraðstoð, þátttaka í viðskiptaþvingunum, samstaðan, málflutningurinn, táknræni stuðningurinn, bókstaflegi stuðningurinn o.s.frv., allt skiptir þetta máli og telur. Það sem ég lít á sem hlutverk okkar líka er að skapa einhvern farveg til þess að leysa þennan mikla kraft og þessa mikla orku úr læðingi sem sprettur fram hjá fólki í þessu landi sem er tilbúið að gera nánast hvað sem er til að aðstoða; fyrirtæki, einstaklingar, fólk sem á íbúðir, fólk sem vill leggja inn á reikning vitandi að það fer á góðan stað. Það er ákveðin óreiða í því að fólk veit ekki hvert það á að leita og finnst mér það vera eitthvað sem við eigum að hugsa hratt og finna leiðir til þess að bæta, að það sé á einhverjum einum stað hægt að klikka á það sem þú vilt láta gera. Ég veit t.d. til þess að í Litháen er heimasíða þar sem menn geta valið ef þeir vilja styrkja fjárhagslega, ef þeir eru með íbúð, ef þeir eru atvinnurekendur og með starf í boði. Þetta er eitthvað sem ég held að væri mjög til bóta fyrir okkur. Móttakan fram undan, óháð því nákvæmlega hversu stór hópurinn verður, verður gríðarlega stórt verkefni og þar þarf að stilla saman strengi. En vonandi munum við þar bæði sýna manneskjulega framkomu og líka sýna það sem við erum almennt frekar góð í, sem er að geta brugðist hratt við og notið góðs af því að hafa fáa milliliði til að gera það sem gera þarf.

Mig langaði að nefna það hérna, vegna þess að margir hafa nefnt að við séum herlaus þjóð og friðelskandi, og ég hef áður sagt þetta í þessum ræðustóli og ætla að segja það aftur: Já, við erum herlaus og já, við erum friðelskandi en það er bara allt venjulegt fólk. Allt venjulegt fólk er friðelskandi og hatar stríð og kannski sérstaklega fólk sem býr í löndum sem ekki geta leyft sér þann munað að vera herlaus. Við getum því svo sannarlega verið þakklát fyrir að vera herlaus þjóð en við eigum ekki að gorta okkur af því. Við getum þakkað fyrir að vera ekki með her en við eigum ekki að gorta okkur af því vegna þess að við treystum á hernaðarstyrk annarra til að tryggja frið okkar og öryggi. Þannig að þrátt fyrir að partur af skilgreiningu okkar og ímynd sem samfélags sé að við séum friðelskandi og herlaus þá tel ég líka að hluti af sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar sé aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, sem við höfum verið allt frá stofnun þess. (Gripið fram í: Heyr, heyr )

Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir spurði hvað hægt væri að gera til að koma upplýsingum til rússnesks almennings þar sem stjórnvöld þar eru svo hrædd við eigið fólk að þau loka á allar utanaðkomandi upplýsingar. Þar hef ég ekki klárt svar en velti því fyrir mér hvort hægt væri með einhverjum hætti að senda þangað langbylgju eins og gert var í kalda stríðinu. Svo er það vissulega þannig að netið er eins og vatn sem finnur sér oft leið fram hjá ritskoðun og ég vona svo sannarlega að netið flæði þar eins og vatnið og finnir sér leiðir til fólksins.

Ég vil taka undir með hv. þm. Sigmari Guðmundssyni þegar hann vísar í orð fyrrverandi utanríkisráðherra um hvað það þýði að gera það sem er rétt, líka þegar það kostar eitthvað, vegna þess að þú setur ekki verðmiða á frið. Þannig að ég ætla að ljúka þessu með því að halda því fram fullum fetum að ég muni standa í lappirnar þegar kemur að samstöðu og því að taka þátt í þvingunum, því að eins og hér hefur margoft komið fram þá eigum við allt undir því að alþjóðalög séu virt. Við eigum allt undir að landamæri og lögsaga á sjó og á landi sé virt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)