152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:31]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Hingað kem ég upp eina ferðina enn, ekki bara til að vekja athygli á því að stjórnvöld eru að skorast undan lagaskyldu til að afhenda þinginu gögn og sinna verklagi við vinnu þingsins sem viðhaft hefur verið í talsverðan tíma. Hér erum við að tala um meðferð umsókna um íslenskan ríkisborgararétt. Nú er staðan í reynd orðin sú að með því að neita að fylgja því verklagi sem viðhaft hefur verið og hv. allsherjar- og menntamálanefnd er að endurskoða ferlið — á meðan því hefur ekki verið lýst yfir formlega að verklagið sem viðhaft hefur verið hingað til skuli viðhaft þangað til búið er að finna út úr því hvaða verklag við viljum viðhafa ef við ætlum að breyta því, má segja að ráðherra hafi tekist að kippa úr sambandi alþingismeðferð á umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt.