152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[15:31]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Ég tek undir það með henni að það þarf að líta á heildarmyndina og það þarf að líta til allra jaðarsettra hópa í hinsegin samfélaginu. Það má vel vera að það sé talað fallega til þessara hópa en þegar ég les þessa aðgerðaáætlun sé ég samt bara skýrslur og úttektir, tal um skýrslur og úttektir. Hatursorðræðulöggjöfin má vissulega sæta breytingum í hegningarlögum og ég fagna því svo innilega. En það þarf líka að huga að því hvernig henni er beitt í framkvæmd og það þarf líka að skoða lög um meðferð sakamála og forgangsröðun lögreglunnar þegar kemur að þessu. Þetta er samspil milli þessara tveggja þátta og við getum ekki haldið áfram að taka hænuskref í málefnum jaðarsettra hópa yfir höfuð heldur þurfum að taka þau föstum tökum og sjá til þess að lögin okkar, lögin sem við setjum hér á Alþingi Íslendinga, nái vel utan um þessa hópa.