152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

eignarráð og nýting fasteigna.

416. mál
[17:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessu frumvarpi um eignarráð og nýtingu fasteigna, um óskipta sameign, landamerki o.fl. Í þessu frumvarpi eru lagðar til mikilvægar umbætur á jarðalögum og ýmsum tengdum lögum. Sérstaklega held ég að það hafi verið mikilvægt að skýra t.d. forkaupsrétt sameigenda eða innan sameignar. Annað sem mér finnst sérstaklega mikilvægt í þessu máli er skýrara hlutverk sýslumanns í úrskurði um landamerki. Ég held líka að það sé mikilvægt að útvíkka forkaupsrétt og taka þar inn forsendur minjaverndar. Ég tel það jákvætt skref. En ég held að það sé mjög mikilvægt í meðferð þessa máls að skýra betur á hvaða forsendum slík heimild yrði virkjuð. Það sama má raunar segja um forkaupsrétt á grundvelli náttúruverndar og ætla ég að koma aðeins betur að því hér á eftir.

Mig langar við þetta tilefni að rifja upp tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í jarðamálum sem ég lagði fram ásamt öllum þingmönnum Framsóknarflokksins á 150. löggjafarþingi. Í þeirri tillögu var komið inn á margt það sem kemur fram í þessu frumvarpi og margt það sem dregið hefur verið fram í þeirri vinnu sem hæstv. forsætisráðherra kom inn á áðan. Því fagna ég mjög allri þeirri vinnu sem fram fór á síðasta kjörtímabili, skýrslunni sem kom fram í maí síðastliðnum, og finnst mjög mikilvægt að þessi vinna haldi áfram núna og haldi áfram með þessu frumvarpi eins og þar er lagt til. Sumt af því sem hér er verið að leggja til á að fylgja eftir með frekari endurskoðun, t.d. eins og landeignaskránni. Þar eru endurskoðunarákvæði og ýmislegt annað sem er mikilvægt að við höldum áfram að vinna með, fylgjumst með því hvort markmið þeirra breytinga sem voru lagðar til á síðasta kjörtímabili og þeirra breytinga sem þetta frumvarp felur í sér náist í öllum tilfellum eða hvort þarf að fara í frekari breytingar. Ég vildi líka nefna að í tengslum við vinnu þessarar þingsályktunartillögu sem við Framsóknarmenn lögðum fram á 150. þingi fékk ég mjög margar ábendingar til mín og átti gagnleg samtöl við fólk um allt land, m.a. einmitt um að það vantaði leið til að fá aðstoð við að úrskurða um landamerki og að skrá þau. Þarna er sú leið komin. Það hefur ítrekað verið umfjöllun um ýmsan vandræðagang sem fylgir sameign jarða og hér er verið að leita leiða til að leysa úr þeim málum. Ég vildi líka koma inn á að það skiptir mjög miklu máli hvernig við förum með land og jarðir og jarðveginn því að þetta eru auðlindir á landi og það að ráða auðlindum, hvort sem er á sjó eða landi, er liður í sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti þjóða.

Þá langaði mig að koma aðeins aftur að því af hverju mér finnst þurfa að huga að forsendum forkaupsréttar vegna minjaverndar eða náttúruverndar. Ég setti raunar þann fyrirvara við afgreiðslu þingflokks míns á málinu að það yrði sérstaklega farið yfir það í vinnu allsherjar- og menntamálanefndar hvernig ríkissjóði yrði skylt að gera grein fyrir forsendum nýtingar forkaupsréttar vegna náttúruverndar og/eða minjaverndar, hvernig samráði við sveitarfélög vegna nýtingar forkaupsréttar ríkissjóðs yrði háttað og hverjar yrðu skyldur ríkissjóðs varðandi jörðina í framhaldinu. Ég held að þetta sé mikilvægt. Það hefur ekki oft reynt á þennan forkaupsrétt náttúruverndarlaga, það hefur þó gerst nokkrum sinnum, og það virðast ekki vera til verklagsreglur um hvað þurfi að koma fram til rökstuðnings slíkri ákvörðun. Ég held að það skipti mjög miklu máli fyrir alla sem munu koma að málum í framhaldinu, hvort sem það eru þeir sem hugsanlega halda áfram nytjum á jörðinni, sveitarfélagið sem fer með skipulagsvald og auðvitað ríkissjóður sem hefur væntanlega einhver áform um uppbyggingu og vernd í framhaldinu. Eins væntanlega ef ríkissjóður nýtur forkaupsréttar, þá er einhverri af stofnunum ríkisins falin umsjón jarðarinnar og þeirri umsjón hljóta að þurfa að fylgja einhver skilaboð frá þeim sem ákvörðunina að taka.

Það kemur fram í skýringum með 1. gr. frumvarpsins um forkaupsrétt friðlýstra menningarminja að það geti verið aðkallandi að tryggja vernd og ásýnd svæðis viðkomandi jarðar utan friðhelgunarsvæðis hinna friðlýstu menningarminja og sérstaklega er tilnefning minjastaðar á heimsminjaskrá UNESCO nefnd, að það gæti verið forsenda þess að kallað yrði á eignarhald ríkissjóðs á viðkomandi jörð. En það sem kemur upp í huga minn er að á flestum ef ekki öllum jörðum eru minjar um búsetu allt frá landnámi og þess vegna er mikilvægt, eins og raunar kemur fram hérna, að ríkið hefur ekki beitt forkaupsrétti vegna friðlýstra menningarminja enda hafa slík ákvæði ekki verið í lögum. En það er mikilvægt að hlutlæg stefnumörkun liggi fyrir sem tryggi jafnræði og gagnsæi þegar kemur að ákvarðanatöku um kaup á tiltekinni jörð eða jarðarhluta á grundvelli menningarminja. Þannig að það hljóta einmitt að þurfa að vera hlutlæg viðmið um hvers konar minjar, sem finna má um allt land, geta orðið grundvöllur þess að forkaupsréttar ríkisins sé neytt. Auðvitað hlýtur líka að þurfa að horfa á áhrif á samfélagið, hvort það geti orðið til uppbyggingar samfélagsins eða hafi áhrif á búsetu á jákvæðan eða neikvæðan hátt á nágrannajörðum o.s.frv. Mér finnst að þessi 1. gr. geti orðið hvati fyrir allsherjar- og menntamálanefnd, ég skil það svo að allsherjar- og menntamálanefnd taki við þessu máli, til að kalla sérstaklega eftir minnisblaði um hvort ástæða sé til að festa í lögin verklagsreglur eða á annan hátt skýra það ferli sem þyrfti að fylgja þegar ríkissjóður neytir forkaupsréttar.

Þá ætla ég ekki að orðlengja meira um þetta mál. Ég vonast til þess að það fái góða umfjöllun, bæði hér í þingsal og í nefndinni, og að það verði eitt af framfaraskrefum í því að vernda auðlindir á landi sem ég tel að sé mikilvægt.