152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

eignarráð og nýting fasteigna.

416. mál
[17:14]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta góða mál sem hér hefur komið fram. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn þegar Framsóknarmenn koma hingað upp hver á fætur öðrum úr sama kjördæminu en það vill bara þannig til að í þessu samhengi, eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á, erum við svolítið tengd þessu máli, þó að við viljum alls ekki að eigna okkur það, langt frá því. Þetta er bara til að undirstrika mikilvægi þessa máls. Það hefur verið allt of mikill losarabragur á þeim hlutum sem snúa að eign á landi, hvar landamerki liggja, hver nýtingin á að vera, hvernig menn fara með land. Mér finnst þetta frumvarp taka ágætlega utan um það. Það eru settar nokkuð skýrar reglur um það hvernig menn fara með þessar fasteignir.

Eins og kemur fram í upphafi frumvarpsins hefur það því miður allt of oft komið fyrir að erfingjarnir sem eiga jörðina eru kannski orðnir 100 og það er engin samstaða um það hvernig menn ætla að nýta landið. Því miður verður það þá of oft þannig að viðkomandi jörð eða land drabbast niður, fellur í verði og verður í sjálfu sér enginn sómi að.

Það er mjög mikilvægt að við horfum til þess, eins og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra, að land er auðlind. Við getum hugsað okkur það þannig til framtíðar, þegar við förum að velta fyrir okkur kolefnisbindingu og því öllu saman, að það verður væntanlega mikil ásókn í að eignast land. Við getum séð það fyrir okkur að menn ætli að fara í það að selja bindingu á jörðum sínum og þá er mikilvægt að það sé ákveðin umgjörð utan um það hvert eignarhaldið er, skýr landamerki og fyrirsvarsmenn fyrir jörðinni. Fyrst ég minnist á landamerki þá hefur það gegnum árin, árhundruðin, verið hálfgerð þjóðaríþrótt að takast á um landamerki. Hafandi alist upp í sveit og búið í sveit allt mitt líf þá held ég að ég geti farið rétt með að í sumum sveitum er það þannig að það er eitthvað verulega mikið að ef ekki er tekist á um landamerki viðkomandi jarða. En með þessu frumvarpi er gerð nokkuð skýr krafa um að menn gerir grein fyrir fasteignum sínum og hvar landamerki liggja. Ég hélt svo sem í einfeldni minni að eftir yfirferð óbyggðanefndar hér áður, sem að vísu er ekki alveg lokið, hefðu menn þurft að gera grein fyrir þessum hlutum til að sýna fram á eignarrétt á sínu landi. Því kom mér það á óvart, og kannski hef ég misskilið það, að í framsögu forsætisráðherra talaði hún um að 26% jarða væru með algerlega skilgreinda rétta lýsingu á landamerkjum sínum og 66% með einhvers konar skilgreiningu. En það getur vel verið að mér hafi misheyrst. Það er mjög mikilvægt að koma þessu á hreint. Það eru til mjög víða mörg góð og gild landamerkjabréf sem væntanlega falla undir þá skilgreiningu sem kemur fram í frumvarpinu um að menn þurfi ekki að hnitsetja landamerki sín ef menn hafa ákveðin bréf til þess sem sýna fram á það. Aftur á móti myndi ég mælast til þess í vinnu nefndarinnar að það yrði farin sú leið að reynt yrði að hnitsetja landamerki. Ég held að það sé mikilvægt upp á framtíðina að eiga þetta, eins og maður segir með góðum hnitum og það sé þá fært til bókar. Það hefur hingað til verið ansi mikill frumskógur að fara í gegnum öll þau landamerkjabréf sem voru opnuð t.d. við yfirferð óbyggðanefndar og sum þeirra voru ansi skrautleg og miðuð við gráan stein uppi í hlíð og einhvern læk sem núna er ekki til o.s.frv. En það er mjög gott að hafa þetta allt skýrt.

Mig langar aðeins í restina af ræðu minni að við veltum fyrir okkur sjálfbærnihugtakinu, landnýtingu og líka tilgangi hins opinbera með því að eiga land. Það eru náttúrlega mjög víða jarðir í eigu hins opinbera, vítt og breitt, og einnig í stofnun skyldri ríkinu sem heitir þjóðkirkjan. Í framhaldi af þessari vinnu væri mjög mikilvægt að við settum fram ákveðna skilgreiningu á því hvernig menn eiga að fara með jarðir ríkisins. Stofnanir á vegum ríkisins hafa um þessar jarðir að segja en virðast ekki hafa vissa og skýra sýn á því hver nýtingin á að vera á jörðunum. Sums staðar hefur það verið þannig að menn eru fæddir þarna og hafa haldið áfram að búa þarna en síðan kemur að leiðarlokum varðandi þann búskap. Þá hefur því miður oft myndast gap þarna á milli þegar hin opinbera stofnun tekur við jörðinni, hvort hún komi henni áfram í nýtingu og þess háttar. Það er sennilega seinni tíma mál en mig langaði að koma inn á það hér vegna þess að það er því miður allt of víða að við erum með glæsilegar og góðar eignir, vítt og breitt um landið, sem eru á hendi ríkisins en eru ekki í mikilvægri notkun eins og hægt væri að hafa þessar glæsilegu eignir mjög víða. Ég spái því að til framtíðar verði mjög og mun eftirsóttara að eiga land og þá er líka mjög mikilvægt að menn haldi vel utan um það og hvað þá að menn búi á viðkomandi jörð. Það versta sem gerist með land er ef það er ekki búið á staðnum. Það er það sem hefur neikvæð samfélagsleg áhrif á jarðirnar og byggðirnar í kring, ef ekki er búið á jörðunum. Það sem við þurfum að passa við gerð á svona frumvörpum er að þar sem er ákveðinn forkaupsréttur sem ríkið hefur, sem er jú mikilvægur og fagna ég honum, þá verðum við líka að hafa næstu skref á hreinu um hvernig við ætlum að nýta landið, ekki bara að viðkomandi fasteign sé á hendi ríkisins heldur hvað við ætlum að gera við viðkomandi fasteign.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir að hafa komið þessari vinnu alla vega hingað. Við eigum væntanlega eftir til framtíðar fleiri skref í því hvernig við viljum sjá fyrir okkur góða og skynsamlega nýtingu á landi.