152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

eignarráð og nýting fasteigna.

416. mál
[17:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé nægur tími til stefnu, svona út af orðum síðasta þingmanns hér sem talaði. Þingið á að vera hér að störfum fram í júní þannig að ég held að það sé ekki verið að ætlast til of mikils að hv. allsherjar- og menntamálanefnd ljúki meðferð þessa frumvarps því að þetta er mjög mikilvægt frumvarp sem nefndin hefur haft ærin tækifæri til að kynna sér undirbúninginn að í gegnum skýrsluna sem hér var dreift. Ég vænti þess því að nefndin ljúki meðferð frumvarpsins, ekki síst í ljósi þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað sem allir hafa lýst stuðningi við þá kerfisbreytingu sem við erum stödd í miðri sem mun koma skýrum ramma utan um yfirstjórn jarða og landareignamála á Íslandi. Það er stóra verkefnið. Þar hafa verið of mikil lausatök. Við stigum fyrsta skrefið 2020 en það er þörf á frekari skrefum.

Mig langar að segja eitt vegna þess sem hér var rætt af hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni um þjóðlendumálin. Við verðum að rifja það upp að úrskurðir í þjóðlendumálum fela eingöngu í sér úrlausn um afmörkun þjóðlendna en ekki að öðru leyti, þannig að kröfulínur aðila að þjóðlendumálum, að því leyti sem þær varða ekki þjóðlendulínu beint, geta gagnast landeigendunum mjög vel til að uppfæra landamerki til nútímahorfs, fyrir utan öll þau landsvæði og jarðir sem eru fjarri þjóðlendunum og hafa ekkert verið til neinnar skoðunar hjá óbyggðanefnd. En eigi að síður gagnast þetta samt, svo ég haldi því til haga af því hv. þingmaður ræddi þetta aðeins hér í sinni ræðu.

Síðan langar mig að nefna það sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir ræddi hér um menningarminjar. Við erum með eigendastefnu sem fjármálaráðherra gaf út 2019 um jarðir ríkisins og af hverju við eigum jarðir. Mér finnast þau almennu sjónarmið sem þar eru reifuð, sem vissulega eru almenn, vera góð. Eðli máls samkvæmt felur þetta alltaf í sér mat, en þar eru lögð til ákveðin leiðarljós sem snúast fyrst og fremst um almannahagsmuni, hagnýtingu, vernd og aðgengi, hvort sem um er að ræða einhver svæði sem tengjast náttúruminjum eða, eins og kemur fram í eigendastefnu hæstv. fjármálaráðherra, sem gengur hér í salinn, þegar um er að ræða sögulegt gildi eða menningarminjar, sem er verulegt, að það séu sérstök rök fyrir eignarhaldi ríkisins. Þetta verður alltaf huglægt mat að einhverju leyti. Við getum ekki birt tæmandi lista og sagt: Þetta eru hinar merkilegu menningarminjar og aðrar er ekki nægjanlega merkilegar, en ég held að hv. þingmenn séu allir meðvitaðir um það að þetta er ekkert klippt og skorið og forkaupsrétturinn sem birtur er í náttúruverndarlögum snýst eingöngu um jarðir á náttúruminjaskrá. Það þarf ekkert að ræða það neitt frekar. En í þessu tilfelli eru nefnd dæmi í greinargerðinni þar sem er rætt um ef aðkallandi er að tryggja vernd og ásýnd svæðis utan friðhelgunarsvæðis hinna friðlýstu menningarminja, því að við erum með dæmi um það þar sem menningarminjar eru í eigu ríkisins en jarðir að öðru leyti í eigu annarra aðila og það getur vel gengið, eða ef ástæða til vegna uppbyggingar sem tengist hinu friðlýsta svæði eða t.d. stýringar umferðar ferðafólks þá fellur þetta undir gildið hagnýting í eigendastefnunni sem ég vitnaði hér til.

Síðan geta sérstakar áætlanir, líkt og tilnefning minjastaðar á heimsminjaskrá UNESCO, kallað á eignarhald ríkissjóðs á viðkomandi jörð. Við sjáum það alveg af þessum dæmum að hér er ekki bara um að ræða almennar fornminjar sem eru hér um land allt, eins og við vitum, nánast á hverri jörð. Þetta er ekki um það heldur snýst um staði sem þykja hafa eitthvert sérstakt gildi fyrir okkar menningarsögu og okkur finnst brýnt að tryggja annars vegar vernd og hins vegar aðgengi að fyrir almenning í landinu þannig að sagan verði okkur aðgengileg. Það kann vel að vera að slíkar minjar geti verið mjög vel geymdar í höndum eigenda sinna. En þetta snýst þá um það þegar jarðir skipta um hendur ef ríkið kýs að stíga inn í vegna þess að það hefur áhyggjur af því að þessi sjónarmið, um vernd og aðgengi, hagnýtingu, séu ekki uppfyllt, að almannahagsmunir séu ekki uppfylltir.

Eins og ég segi, það er ekki hægt að skrifa þetta nákvæmlega út þó að það væri auðvitað freistandi. En ég held að þarna þurfum við líka að treysta því að framkvæmdarvaldið þá leggi málefnalegt mat og gangi ávallt fram með málefnalegum hætti og af meðalhófi.

Ég ætla ekki að vera lengur í þessu máli. Ég verð bara að segja að þetta er mikilvægt mál vegna þess að þetta snýst um kerfisbreytingar sem ég held að lúti að því hvernig við umgöngumst landið og byggir líka frekari grunn fyrir frekari ákvarðanir, því að nokkrir hv. þingmenn nefndu að þetta væri ákveðin vegferð. Þar kemur t.d. til kasta matvælaráðherra þegar kemur að því að horfa til þess hvernig við viljum nýta landið og hvetja til þess. Þar kemur til kasta innviðaráðherra sem ber ábyrgð á landsskipulaginu og svo auðvitað umhverfisráðherrans, þannig að það liggur alveg fyrir að það eru frekari verkefni óunnin og við munum í kjölfar umfjöllunar hv. allsherjar- og menntamálanefndar um þetta frumvarp í raun og veru meta það hvernig við getum haldið áfram, hvort stýrihópurinn eigi að halda áfram og vinna þetta áfram í samvinnu þessara ráðuneyta. Það hefur gengið alveg hreint ótrúlega vel miðað við hvað margir hafa komið að. Ég vil sérstaklega nefna sveitarfélögin líka í því samhengi sem hafa verið gríðarlega mikilvægur samstarfsaðili í þessu.

En lengra hef ég þetta ekki, frú forseti, og hlakka til að fá að fylgjast með þinglegri meðferð þessa mikilvæga máls.