Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:50]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Forseti. Mig langar fyrst og fremst að þakka hv. framsögumanni fyrir að leggja fram þessar breytingar. Það er ekkert leyndarmál að þessi lagabálkur þarfnast stórra og mikilla úrbóta. Þau lög sem um ræðir tóku gildi 1. janúar 2002. Nú eru rúmlega 60 dagar í kosningar sem eiga að fara fram á grundvelli þessara laga en frumvarpið er enn að taka breytingum á Alþingi og það vekur mig til umhugsunar. Voru þessi lög lesin yfir áður en þau tóku gildi? Hvaða voðalega flýtimeðferð var þetta sem lagafrumvarpið fékk? Svo ekki sé minnst á að ekkert er talað um íbúakosningar í þessum lagabálki og nú þurfa sameiningar sveitarfélaga að eiga sér stað á grundvelli lagaákvæða og lagabálka sem hafa eðli málsins samkvæmt fallið úr gildi. Ég spyr bara: Hvers konar vinnubrögð eru þetta?

Forseti. Í alvörunni talað, lærðum við ekkert af Norðvesturkjördæmisfíaskóinu? Ég átta mig á því að þetta var samþykkt á síðasta kjörtímabili og því ekkert við hv. þingmann og framsögumann Þórunni Sveinbjarnardóttur að sakast. Ég vil hins vegar að Alþingi, löggjafarvald Íslands, læri af mistökum sínum og vandi úrbætur þegar kemur að þessum lagabálki. Það er margt sem má bæta og sem betur má fara er varðar þetta frumvarp, en Ísland á ekki að skila óvönduðum kosningalögum og reddingum tveimur mánuðum fyrir kosningar. Því fagna ég því að heyra hv. þingmann tala um að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætli að vanda til verka þegar kemur að mögulegum frekari úrbótum og viðbótum í þessu lagafrumvarpi. En kjarni málsins er einfaldlega sá að það átti sér stað atvik í síðustu alþingiskosningum sem við gleymum vonandi ekki og við þurfum bara að læra af óförum okkar, mistökum, og vanda til verka sem löggjafarvald Íslands að þegar kemur að hvers kyns lýðræðislegum kosningum.