152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

þolendamiðuð heildarendurskoðun hegningarlaga.

207. mál
[18:37]
Horfa

Flm. (Lenya Rún Taha Karim) (P):

Forseti. Við viljum að réttarkerfið á Íslandi sé sanngjarnt. Við viljum að fólk geti treyst kerfinu fyrir málum sínum vitandi að það mun að endingu fá sanngjörn málalok, að gerendur afbrota fái viðeigandi refsingu og að þolendur þeirra fái réttlætinu fullnægt. Stórir hópar í íslensku samfélagi treysta hins vegar ekki réttarkerfinu, einmitt vegna þess að það veitti þeim ekki sanngjörn málalok. Þolendur margvíslegs ofbeldis og aðstandendur þeirra hafa leitað á náðir kerfisins, lögreglu og dómstóla, í von um viðurkenningu á því óréttlæti sem þau voru beitt, en án árangurs. Eftir sitja þúsundir Íslendinga reiðir og vonlitlir um að réttlæti sé að finna innan refsivörslukerfisins.

Ég mæli því hér fyrir þingsályktunartillögu um þolendamiðaða heildarendurskoðun hegningarlaga. Þrátt fyrir að málið sé víðfeðmt lýsir þessi þriggja orða titill tillögunnar vel innihaldi hennar, að taka hegningarlögin, sjálfan grundvöllinn að réttarkerfinu, til endurskoðunar og gera nauðsynlegar breytingar svo hegningarlögin virki fyrir þolendur og þjóni samfélagslegu hlutverki sínu.

Tillagan setur útfærslu frumvarpsins í hendur hæstv. dómsmálaráðherra sem hefði frest fram til 1. október næstkomandi til að leggja fullbúið frumvarp fyrir Alþingi. Við endurskoðunina verði ráðherra gert að líta til þess hvernig tryggja megi hagsmuni og réttindi þolenda hvers kyns afbrota með sérstaka áherslu á úrbætur í nokkrum málaflokkum eins og kynferðisbrotum, ofbeldi í nánum samböndum, byrlunum, hatursglæpum, röngum sakargiftum og meiðyrðamálum gegn þolendum sem ég mun koma betur inn á síðar.

Tillagan gerir kröfu um að ráðherra skipi starfshóp sérfræðinga sér til halds og trausts við endurskoðunina þar sem fulltrúar og samtök þolenda munu eiga sæti auk sérfræðinga og fulltrúa jaðarsettra hópa í íslensku samfélagi. Flutningsmenn telja óhjákvæmilegt að við þessa vinnu verði horft í auknum mæli til hugmynda um uppbyggilega réttvísi og skaðaminnkun vegna afbrota þannig að úrvinnsluferli verði á forsendum þolenda, en nánari útskýringu á hugmyndafræðinni má nálgast í greinargerð tillögunnar.

Tilefni þessa þingmáls ætti að vera ljóst öllum þeim sem fylgst hafa með þjóðfélagsumræðunni undanfarin ár. Þolendur hafa stigið fram í hundraðatali og lýst reynslu sinni af réttarkerfinu. Hvernig þeir komu að lokuðum dyrum, mættu skilningsleysi og fengu að lokum ekki réttlætið sem þeir óskuðu eftir. Þetta hefur birst okkur í kröfugöngum, vitundarvakningu, samfélagsmiðlaherferðum og einlægum viðtölum þar sem þolendur hafa þurft að tjá sig um erfiðustu augnablikin í lífi sínu. Það er enda þess vegna sem tilgangur þessarar tillögu er ekki síst að hlusta á þessar raddir og stuðla að því að réttarkerfið virki fyrir þolendur. Það þarf að tryggja betur réttindi þeirra í málsmeðferð lögreglu, dómstóla og stjórnvalda og reyndar ákveðið samspil milli laga og félagslega kerfisins. Að sama skapi þarf að tryggja að gerendur afbrota sæti viðeigandi ábyrgð fyrir brot sem sé í samræmi við þann skaða sem brotin valda án þess að ganga á réttindi sakborninga.

Ljóst er að þörf er á fjölþættum aðgerðum til að uppræta kynbundið ofbeldi og kynferðisbrot í íslensku samfélagi, bæði hvað varðar verklag og fjármögnun stjórnvalda og opinberra stofnana, ekki síst lögreglu, dómstóla og heilbrigðisyfirvalda. Grundvöllur réttarkerfisins hvílir engu að síður á þeim lögum sem Alþingi setur, ekki síst almennum hegningarlögum, sem eru þau lög sem liggja til grundvallar við alla ákvarðanatöku um hvernig yfirvöld stemma stigu við og bregðast við afbrotum í samfélaginu. Hegningarlögin eru meira en 81 árs gömul, en þau tóku gildi í ágúst árið 1940. Íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum áratugum og breytingarnar orðið sífellt hraðari. Undanfarin ár hafa verið gerðar tilraunir til að taka mið af þessari þróun með breytingum á einstaka ákvæðum hegningarlaga sem hafa náð ágætum árangri. Þær hafa þó ekki komið í staðinn fyrir nauðsyn þess að nálgast hegningarlögin með heildstæðum hætti út frá sjónarhóli þolenda.

Samfélagið er svo sannarlega ekki eins og það var árið 1940 og það hefur komið bersýnilega í ljós á allra síðustu árum. Umræðan um afbrot er nú í auknum mæli á forsendum þolenda og með þeirra hagsmuni að leiðarljósi, enda hafa þolendur stigið fram og beint sjónum almennings að því óréttlæti sem þeir hafa mátt þola. Undiraldan hefur aukist á undanförnum misserum þar sem sístækkandi hópur krefst úrbóta í réttarkerfinu og í þjónustu og aðstoð fyrir þolendur kynferðisbrota, kynbundins ofbeldis og annarra tengdra afbrota. Því til viðbótar verður að líta til þess að á undanförnum árum hefur fjölbreytni íslensks samfélags aukist jafnt og þétt. Ísland hefur breyst úr einsleitu þjóðfélagi í sannkallað fjölmenningarsamfélag þar sem fólk af fjölbreyttum uppruna býr saman. Núgildandi hegningarlög taka ekki fyllilega tillit til þeirrar staðreyndar, því miður. Til þess að koma á raunverulegum úrbótum þolendum til heilla verður að endurskoða grunnstoðir kerfisins sem í þessu tilfelli eru hegningarlögin sem skera úr um hvaða háttsemi er refsiverð og hverjar refsiheimildirnar eru. Samhliða verður vitaskuld að horfa til annarra laga og því gerir tillagan jafnframt kröfu um að ráðherra kanni við gerð frumvarpsins hvort gera þurfi breytingar á sérrefsilögum. Auk þess þarf að kanna hvaða breytingar er nauðsynlegt að gera á lögum um meðferð sakamála eftir því sem nauðsyn krefur vegna þeirrar breytingar sem frumvarp þetta hefur í för með sér.

Forseti. Almenn hegningarlög telja alls 267 gr. og því er ljóst að þolendamiðuð endurskoðun þeirra er mikið verk. Þessi tillaga leggur því áherslu á að ráðherra líti sérstaklega til þess að tryggja hagsmuni og réttindi þolenda vegna brota gegn XII–XV. kafla hegningarlaga og sérstök áhersla er lögð á úrbætur í fimm málaflokkum. Þeirra fyrstur eru kynferðisbrot, en sá málaflokkur hefur verið hvað mest áberandi í opinberri umræðu á undanförnum árum. Rannsóknir á afdrifum kynferðisbrota í íslensku réttarkerfi sýna mikilvægi þess að taka málaflokkinn til endurskoðunar. Sakfellingarhlutfallið í kynferðisbrotamálum er gríðarlega lágt og vísa ég áhugasömum á greinargerð tillögunnar í því samhengi. Þótt kynferðisbrot kunni að vera skýrasta birtingarmynd þeirrar takmörkuðu ábyrgðar sem gerendur sæta í tilteknum brotaflokkum bendir margt til að svipaðar kringumstæður kunni að vera uppi í öðrum brotaflokkum, þá sérstaklega þeim sem varða kynbundið ofbeldi annars vegar og ofbeldi og áreitni gagnvart jaðarsettum hópum hins vegar. Þótt kynferðisbrot séu algengasta og skýrasta form kynbundins ofbeldis eru margir aðrir brotaflokkar þar sem ekki hefur myndast skýr venja fyrir að gerendur sæti ábyrgð þegar þeir brjóta af sér. Þar má sem dæmi nefna brot gegn kynferðislegri friðhelgi eða stafrænt kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum, en hið síðarnefnda er annar málaflokkur sem verður að leggja sérstaka áherslu á við endurskoðunina enda virðist lagaákvæðið vera að hníga í þá átt að beitingin í framkvæmd sé ekki í þágu þolenda. Rannsóknir sýna með óyggjandi hætti að ofbeldi í nánum samböndum er útbreiddur vandi sem tekur á sig margar birtingarmyndir og það er mat flutningsmanna að núverandi lagaumhverfi nái illa utan um hann, sem bitnar mjög á þolendum.

Í greinargerð tillögunnar má fræðast frekar um vankanta á núverandi löggjöf. Þriðji málaflokkurinn sem flutningsmenn vilja að horft verði til við endurskoðun hegningarlaga snýr að byrlunum. Í samfélaginu hafa augu almennings í auknum mæli opnast fyrir tíðni og alvarleika byrlana en í núgildandi hegningarlögum er þó ekki að finna neina sjálfstæða refsiheimild gegn byrlunum. Það liggur í augum uppi að byrlun ólyfjanar er alvarlegt inngrip í persónufrelsi og persónulega friðhelgi einstaklings og því ótækt að ekki skuli fyrirfinnast í hegningarlögum sjálfstæð refsiheimild við byrlunum. Flutningsmenn vilja að skoðað verði hvernig tryggja megi að byrlun ólyfjanar teljist til sjálfstæðs refsiverðs brots þar sem þyngd refsingar endurspeglast í alvarleika brotsins.

Í fjórða lagi vilja flutningsmenn að hatursglæpur fái sérstaka umfjöllun við endurskoðun hegningarlaga. Hér á landi er ekki að finna neina sérstaka löggjöf um hatursglæpi, eiginlega skilgreiningu á hatursglæpum eða sérstakt ákvæði sem tekur á því þegar glæpir beinast sérstaklega að tilteknum minnihlutahópi, að undanskildu ákvæði hegningarlaga sem fjallar um bann við hatursorðræðu. Að sama skapi hefur hatursorðræða öfgaafla gegn minnihlutahópum aukist og víða um heim hafa hatursglæpir verið viðurkenndir sem sérstakur brotaflokkur og telja flutningsmenn fulla ástæðu til að hið sama verði gert hér á landi.

Fimmti og síðasta málaflokkurinn sem rétt er að horfa til við endurskoðunina eru meiðyrðamál gegn þolendum og kærur um rangar sakargiftir. Slíkum málshöfðunum hefur fjölgað samhliða aukinni samfélagslegri umræðu um kynferðisofbeldi. Sé það vilji Alþingis að þolendur hafi tök á að tjá sig um ofbeldið sem þeir verða fyrir er nauðsynlegt að þeir geti gert það án þess að eiga hættu á að gerendur þeirra noti réttarkerfið sem vopn gegn þeim. Réttarkerfið á að virka fyrir þolendur sem leið til að ná fram réttlæti og því ættu núgildandi ákvæði hegningarlaga og laga um meðferð sakamála að vera þannig úr garði gerð að þau tryggi hagsmuni þolenda og verndi þá nægilega fyrir tilhæfulausum kærum og málshöfðunum gerenda þegar á reynir.

Forseti. Þó að það kunni að vera skýringar á lágu sakfellingarhlutfalli í málaflokkum er varða kynbundið ofbeldi og tengda málaflokka er það engu síður óásættanlegt að það sé undantekning frekar en meginregla að gerendur axli ábyrgð á brotum sínum. Það hlýtur að vera markmið og vilji Alþingis að lögin sem við setjum stuðli að sanngjörnu réttarkerfi en skilji fólk ekki eftir í sárum með laskaða trú á kerfinu sem við höfum skapað. Við viljum að fólk geti treyst kerfinu fyrir málefnum sínum vitandi að það muni að endingu fá sanngjörn málalok, að gerendur afbrota fái viðeigandi refsingu og þolendur þeirra fái réttlætinu fullnægt. Það er trú flutningsmanna að sú endurskoðun sem er boðuð hér sé skref í þá átt, skref í átt að réttarvörslukerfi sem grípur þolendur kynferðisbrota og fullnægir réttarvitund sístækkandi hluta þjóðarinnar sem vill að hagsmunir og réttindi þolenda verði loksins settir í forgang.

Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.