152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:01]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í desember síðastliðnum þegar undirnefnd um afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt til Alþingis tók til starfa kom nefndin að tómum kofanum, engar umsóknir höfðu borist frá Útlendingastofnun eins og vera ber. Þau svör fengust frá stofnuninni að ákveðið hefði verið að breyta verklagi þannig að umsóknirnar bærust einhvern tímann þegar Útlendingastofnun hentaði. Það sem allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis ákvað að gera til að reyna að knýja fram þessi gögn sem þingið og nefndin hefur þörf fyrir til að sinna sinni lögbundnu vinnu við það að veita ríkisborgararétt var að kalla eftir þessum gögnum með vísan til 1. mgr. 51. gr. laga um þingsköp Alþingis, sem leggur þá skyldu á stjórnvöld að afhenda þinginu gögn sem þingið fer fram á. Var Útlendingastofnun gefinn frestur til 1. febrúar til þess að afhenda þessi gögn. Ágreiningur hefur komið fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra um að þessi grein bindi alls ekki hendur Útlendingastofnunar í þessu máli. Farið var fram á lögfræðiálit um þetta efni hér í þingsal, lögfræðiálitið er komið í hús og álitið er skýrt. (Forseti hringir.) Hæstv. dómsmálaráðherra og Útlendingastofnun í hans umboði braut lög (Forseti hringir.) þegar hún afhenti Alþingi ekki gögnin sem hún var krafin um fyrir 1. febrúar síðastliðinn.