152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:05]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að taka undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur og óska eftir afstöðu hæstv. forseta til þess hvað þinginu beri að taka til bragðs í þessari stöðu. Það er orðið kýrskýrt að dómsmálaráðherra er að brjóta lög og Útlendingastofnun er að brjóta lög með því að afhenda ekki þessi gögn, eða öllu heldur með því að vera ekki löngu búin að afhenda þessi gögn.

Mig langar jafnframt að taka undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur varðandi það að þetta snýst ekki bara um gríðarlega vanvirðingu gagnvart þinginu heldur erum við að tala um raunverulega einstaklinga úti í samfélaginu sem eru að bíða eftir niðurstöðu. Ég hef sömuleiðis veður af fólki sem á yfir höfði sér neikvæða niðurstöðu hjá Útlendingastofnun en þar sem Útlendingastofnun er búin að lofa þinginu að aðhafast ekkert fyrr en við erum búin að afgreiða þessar umsóknir þá bíður þetta fólk. Þarna eru börn, fleiri en eitt og fleiri en tvö, sem bíða í fullkominni óvissu um framtíð sína eftir því að Útlendingastofnun þóknist, sem er í trássi við lög, að afhenda þinginu gögn sem átti afhenda í desember og í allra síðasta lagi 1. febrúar síðastliðinn.