152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Það sem mig langar að ræða hér í dag er sú alvarlega staða sem upp er komin í íslenskum landbúnaði. Það er staðreynd að margt má bæta í rekstrarumhverfi íslenskra bænda. Framleiðsluvilji íslenskra bænda fer dvínandi og þá sérstaklega í kjötframleiðslu. Aðstæður eru erfiðar og með sífellt alþjóðlegri matvælamarkaði hafa stórir erlendir framleiðendur farið að ryðja sér til rúms í auknum mæli í smásölu hér á landi. Lengi hefur verið kallað eftir því að kjötframleiðslan fái sömu undanþágu og mjólkuriðnaðurinn sem 71. gr. búvörulaga kveður á um. Með því væri afurðastöðvum í kjötiðnaði gert heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Þetta hefur mjólkuriðnaðurinn fengið að gera og við höfum séð undanfarin 17 ár að slík undanþága hefur verið honum til hagsbóta. Hagræðing innan mjólkuriðnaðarins nemur milljörðum árlega og það er engin raunveruleg fyrirstaða fyrir því að ekki sé hægt að gera slíkt hið sama fyrir kjötiðnaðinn. Með veitingu slíkrar undanþágu er íslenskum kjötiðnaði veittur töluverður efniviður til að bregðast við ört vaxandi samkeppni að utan. Með því aukum við framleiðslu, gerum rekstrargrundvöll og framleiðsluvilja starfsgreinarinnar betri og stuðlum að sanngjarnari verðlagningu. Ég skora á hæstv. matvælaráðherra að taka undir ákall íslenskra bænda í þessu og í þá átt. Málið er einfaldlega þannig vaxið að það þolir enga bið.

Virðulegur forseti. Aðgerða er þörf strax.