152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Á fundi fjárlaganefndar með fulltrúum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í morgun komu fram tillögur frá stofnuninni um hver gætu verið næstu skref á húsnæðismarkaði. Á árunum eftir efnahagshrunið 2008 og fram til ársins 2017 var lítið byggt. Þrátt fyrir að til hafi verið talsvert af húsnæði á lager kemur það niður á okkur núna. Nú er gert ráð fyrir að byggja þurfi 3.500–4.000 íbúðir á ári næstu árin í það minnsta. Þess vegna leggur HMS áherslu á að tryggð verði stöðug uppbygging íbúða til að koma í veg fyrir óhóflegar hækkanir íbúðaverðs. Það er því nauðsynlegt að gerðar verði áætlanir um uppbyggingu um allt land en ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga ættu að geta hjálpað til við að meta uppbyggingarþörf á hverjum stað og með því að þessi málaflokkur er nú kominn á einn stað í kerfinu ætti að nást betur utan um málaflokkinn. Þá var einnig bent á að hið opinbera þyrfti að koma með aukinn stuðning til þess að fjölga íbúðum og tryggja aðgengi tekjulágra að öruggu húsaskjóli. Það er best gert með því að auka stofnframlög til óhagnaðardrifinna leigufélaga sem geta þá, með því að bjóða upp á lægri húsaleigu, haft áhrif á leigumarkaðinn til hins betra. Ríki og sveitarfélög þurfa að taka þennan málaflokk föstum tökum, einfalda regluverkið og stuðla að aukinni samræmingu.

Virðulegur forseti. Einn af grundvallarþáttum í lífi hvers einstaklings er að eiga öruggt þak yfir höfuðið. Hættum því þessum umkenningaleik og tökum á þessu saman.