152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Forseti. Innrásin í Úkraínu mun hafa margar víðtækar og vondar afleiðingar í för með sér, einnig hér á landi þó að þær afleiðingar verði auðvitað hjóm eitt miðað við hvað fólkið í Úkraínu er að ganga í gegnum. Við þurfum að sjálfsögðu að taka þátt í því að gera það sem þarf og þá er ábyrgðarhluti okkar allra hér að vera vakandi fyrir stöðunni og grípa til allra þeirra aðgerða sem í boði eru. Innflutt verðbólga hér á landi mun til að mynda aukast enn meira og kynda frekar undir verðbólgu. Forsagan er m.a. sú að til að bregðast við heimsfaraldri kórónuveirunnar lækkuðu margir seðlabankar vexti og samhliða juku ríkissjóðir útgjöld og drógu úr skattheimtu til að styðja við fjárhag heimila og fyrirtækja í efnahagskreppu. En efnahagsbatinn var bæði skjótari og kraftmeiri en gert var ráð fyrir, sem leiddi til aukinnar innlendrar eftirspurnar, sem birtist ekki síst á húsnæðismarkaði hérlendis og annars staðar.

Það skýtur því skökku við að hér í þessum sal hefur verið kallað eftir sértækum aðgerðum fyrir heimili í þessari stöðu sem eru kallaðar framboðshvetjandi, en eru, að mér sýnist, miklu frekar eftirspurnarhvetjandi og myndu ýta enn frekar undir þenslu á fasteignamarkaði og kynda undir verðbólgubálið, nú þegar við stöndum þvert á móti frammi fyrir þeirri áskorun að draga úr þenslu í hagkerfinu. Seðlabanki Íslands hefur m.a. það markmið að stuðla að stöðugri og lágri verðbólgu. Aðgerðir Seðlabankans mega sín vissulega lítils gegn verðbólgu sem stafar af verðhækkunum erlendis. Og þó að Ísland verði ekki fyrir jafn beinum efnahagsáhrifum af stríðinu, t.d. vegna þess að við þurfum ekki að horfa upp á stóraukinn kostnað við húshitun eins og mörg önnur ríki, munu hér verða afleiðingar þess.

Forseti. Í öllum þessum áskorunum skiptir máli að teknar séu yfirvegaðar og skynsamlegar ákvarðanir í þágu heildarinnar til framtíðar en ekki einungis það sem kannski kann betur að hljóma.