152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Breyttar aðstæður kalla á þéttari samvinnu innan NATO og ESB. Ísland er þar engin undantekning. Við í Viðreisn höfum lagt fram þingsályktunartillögu um aukið samstarf í öryggis-, utanríkis- og varnarmálum. Þetta er mál sem við verðum að fylgja eftir. Við verðum í fyrsta lagi að koma með áætlun um aukna þátttöku Íslands í borgaralegum störfum vegna sameiginlegra verkefna NATO. Nú þegar hafa bandalagsríki okkar stóraukið framlög sín til varnarmála og þá er rétt að Ísland leggi sitt af mörkum með okkar hætti. Við þurfum líka að tryggja að varnarsamningur við Bandaríkin taki með ótvíræðum hætti til netárása og tryggi órofið samband okkar Íslendinga við umheiminn á ófriðartímum, svo sem á sviði flutninga, orkuöryggis og fjarskipta. Við þurfum hér belti og axlabönd. Það er óljóst hversu vel varin við erum á þessu sviði eins og ítrekað hefur verið bent á. Við þurfum að meta hagsmuni okkar algerlega fordómalaust, hvort rétt sé að tryggja hér viðvarandi veru varnarliðs. Það gengur ekki að mínu mati að forsætisráðherra Íslands slái slíka valkosti sjálfkrafa út af borðinu, ekki síst þegar hættan er svona vaxandi víða um heim. Og ég spyr sjálfa mig: Eru svona yfirlýsingar til heimabrúks, til nota innan raða VG, eða hefur raunverulegt hagsmunamat átt sér stað þegar kemur að þessum þætti?

Síðan sjáum við, virðulegur forseti, fram á viðhorfsbreytingar hjá almenningi. Nú eru innan við 10% fólks sem styðja það að við segjum okkur úr NATO, eru gegn NATO. Samkvæmt nýjustu könnunum er helmingur þjóðarinnar fylgjandi aðild okkar að ESB sem er með því mesta á síðari árum. Bein andstaða við ESB hefur snarminnkað um rétt rúmlega 13%. Hér eru að verða miklar breytingar. Staðreyndin er sú að samvinna um öryggis- og varnarmál og viðskiptasamstarf tengjast órjúfanlegum böndum. Þetta eru tvær hliðar á sama peningi. Þar sem ríkir samvinna og frelsi og efnahagslegur stöðugleiki eru meiri líkur (Forseti hringir.) á að friður náist og sé þá til lengri tíma. Þess vegna verðum við að vera með virka þátttöku í NATO og við eigum að einhenda okkur í (Forseti hringir.) að tryggja okkur fulla aðild innan Evrópusambandsins.