152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Við sem erum ný á þingi sitjum oft hérna inni í þingsal fram eftir eftirmiðdegi og stundum kvöldi. Það er nefnilega svo gaman að þegar maður er hér í fámennum hópi þá fær maður oft eina bestu innsýnina í hjarta og huga þeirra sem sitja á Alþingi. Það er á þessum tíma dags sem svokölluð þingmannamál eru borin upp, frumvörp og þingsályktunartillögur sem þingmenn flytja, annaðhvort einir eða í samstarfi við fólk úr eigin flokki eða jafnvel úr öllum flokkum. Þarna koma oft fram frumvörp sem taka á því ójafnræði og þeirri vitleysu sem fyrirfinnst í kerfinu eða eru ábendingar um hvað kerfið er árum eða áratugum á eftir þróuninni í samfélaginu. Það sorglega er hins vegar að alveg sama hversu góðar ábendingarnar eru þá eiga þessi mál sjaldnast neitt líf í þinginu. Flutningsmenn fá að flytja þau og kannski eru einhverjir hérna á þingvaktinni seint að kvöldi sem eru til í að taka undir þau, nú eða mótmæla kannski harðlega, en vaninn er að þessi mál endi í fastanefndum þingsins þar sem þau deyja drottni sínum. Eini möguleiki þeirra á að lifna við er að sá þingflokkur sem viðkomandi er í ákveði að semja um að þau mál séu hluti af þeim hrossakaupum sem flokkarnir gera um hvaða mál verði tekin fyrir áður en þinginu lýkur, en það er oftast eitt til tvö mál á flokk, og þá fá þau kannski að fara inn í þingsal og í 2. umr.

Virðulegi forseti. Þessu fyrirkomulagi þarf að breyta því að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að allar góðar hugmyndir, breytingar og ábendingar komi einungis í gegnum ráðuneytin og frá þeim sem þar sitja. Við þurfum að leyfa þeim málum sem þingmenn brenna fyrir að eiga lengra líf (Forseti hringir.) og a.m.k. komast í atkvæðagreiðslu innan þingsins.

Virðulegi forseti. Ég afsaka hvað ég var seinn. Klukkan gengur svo hægt seint að kvöldi.