152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mælti fyrir þessu frumvarpi hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þingfundi í gær. Það varð samhljóða niðurstaða í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að flytja þetta mál enda nauðsynlegt að gera þessar lagfæringar á kosningalögum, sem eru lög sem voru samþykkt á síðasta ári, lög nr. 112/2021, hér á hinu háa Alþingi. Við ræddum það og það kom fram við 1. umr. í gær, m.a. í máli hv. þm. Lenyu Rúnar Taha Karim að það væri auðvitað einkennilegt að við stæðum í þessum sporum svona stuttu eftir að heildarlögin, eða sem sagt lagabálkurinn, fengu afgreiðslu hér á Alþingi. Ég get tekið undir það líkt og ég gerði í gær, en breytingarnar þarf að gera og ég held að allir séu meðvitaðir um það hér á hinu háa Alþingi að breytingarnar þarf að gera svo að hægt sé að framkvæma sveitarstjórnarkosningar í vor og standa þannig að þeim að enginn vafi leiki á lögmæti þeirra. Við höfum því miður nýleg dæmi sem gera okkur ljóst að ekki verður of varlega farið í því máli.

Í greinargerð frumvarpsins stendur, frú forseti:

„Hinn 1. janúar 2022 tóku gildi ný kosningalög, nr. 112/2021. Með þeim lögum voru gerðar miklar breytingar á því fyrirkomulagi sem verið hefur á framkvæmd kosninga. Með lögunum var sett á fót sjálfstæð stjórnsýslunefnd, landskjörstjórn, sem nú hefur yfirumsjón með framkvæmd kosninga og kosningalaga í stað dómsmálaráðuneytisins áður. Ráðherra skipaði landskjörstjórn sem tók til starfa 1. janúar sl.“

Eins og allir hv. þingmenn vita er þetta grundvallarbreyting á því hvernig við framkvæmum kosningar.

Í vinnu við undirbúning sveitarstjórnarkosninga sem fram fara 14. maí 2022 hafa komið í ljós ágallar á lögunum sem óhjákvæmilegt er að lagfæra án tafar. Hafa ábendingar um slíkt m.a. borist dómsmálaráðuneytinu frá undirbúningsnefnd nýrra kosningalaga og yfirkjörstjórn Reykjavíkur. Þá hefur landskjörstjórn fjallað um málið og var niðurstaða hennar að afar mikilvægt væri að nauðsynlegar lagabreytingar næðu fram að ganga sem allra fyrst og eigi síðar en fyrri hluta marsmánaðar. Og eins og við öll vitum þá er í dag 9. mars á því herrans ári 2022. Einnig hefur yfirkjörstjórn Reykjavíkur sent áskorun um að frumvarp um nauðsynlegar breytingar á kosningalögum, um viðmiðunardag kjörskrár og fresti, verði lagt fram sem fyrst.

Helsti ágalli laganna, eins og fram kom við 1. umr., snýr að misræmi í dagsetningum hvað varðar viðmiðunardag kjörskrár og hvenær framboð skuli tilkynnt. Þetta misræmi gerir það að verkum að þegar framboð hafa verið tilkynnt 36 dögum fyrir kjördag liggur ekki fyrir kjörskrá sem er þó forsenda þess að yfirkjörstjórn geti kannað hvort meðmælendur með framboðslistum séu kjósendur í hlutaðeigandi sveitarfélagi og þar með hvort skilyrði fyrir framboði séu uppfyllt.

Ef horft er til komandi sveitarstjórnarkosninga þá skal tilkynna öll framboð til yfirkjörstjórna eigi síðar en kl. 12 á hádegi föstudaginn 8. apríl 2022, en viðmiðunardagur kjörskrár er kl. 12 á hádegi mánudaginn 11. apríl 2022. Þá skal Þjóðskrá Íslands auglýsa að kjörskrár hafi verið gerðar eigi síðar en fimmtudaginn 14. apríl 2022 og framboðslista skal auglýsa eigi síðar en fimmtudaginn 14. apríl 2022. Ljóst er að nauðsynlegt er að færa viðmiðunardag kjörskrár þannig að hann sé áður en framboðsfresti lýkur. Það er auðvitað grundvallaratriði. Til samræmis þarf jafnframt að breyta þeim fresti sem námsmenn á Norðurlöndum hafa til að tilkynna sig á kjörskrá og þeirri dagsetningu þegar Þjóðskrá Íslands skal í síðasta lagi auglýsa að kjörskrá hafi verið gerð.

Í frumvarpinu er lagt til að þessar viðmiðunardagsetningar breytist sem gerir það að verkum við sveitarstjórnarkosningarnar á komandi vori að viðmiðunardagur kjörskrár yrði kl. 12 á hádegi miðvikudaginn 6. apríl 2022. Umsóknir íslenskra námsmanna á Norðurlöndum þurfa að berast til Þjóðskrár Íslands eigi síðar en 4. apríl 2022 og eigi síðar en föstudaginn 8. apríl 2022 skal Þjóðskrá Íslands auglýsa að kjörskrár hafi verið gerðar. Breytingin hefur ekki áhrif á það hvenær framboðsfrestur rennur út eða hvenær yfirkjörstjórnir skulu auglýsa framboðslista. Það er líka mikilvægt.

Tillögurnar í frumvarpinu eru um lágmarkstilfæringar á dagsetningum.

Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að viðmiðunardagur kjörskrár verði færður fjær kjördegi, þ.e. hann verði 38 dögum fyrir kjördag í stað 33 daga. Til samræmis er síðasti dagur sem námsmenn á Norðurlöndum hafa til að skrá sig á kjörskrá einnig færður til, þannig að hann verði 40 dögum fyrir kjördag. Jafnframt er síðasti dagur til að auglýsa kjörskrár færður til þannig að hann verði 36 dögum fyrir kjördag í stað 30 daga.

Í öðru lagi er kveðið á um nauðsynlegar lagfæringar á nokkrum atriðum, bæði í kosningalögum og í lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, t.d. hafa málsliðir fallið niður, tilvísanir til laga eru ekki réttar og láðst hefur að fella niður tilvísun til atriða sem voru í frumvarpi til kosningalaga en breyttust í meðförum þingsins. Hér hefur sem sagt skort á almennilegan samlestur.

Í þriðja lagi er lagt til í bráðabirgðaákvæði að heimilt verði í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí næstkomandi að senda atkvæðisbréf sem greidd eru utan kjörfundar áfram til sýslumanns í því umdæmi þar sem kjósandi telur sig vera á kjörskrá auk þess sem taka skuli til greina og ekki meta atkvæði greitt utan kjörfundar ógilt þótt notuð séu eldri kjörgögn. Þetta er einnig mjög mikilvægt til að virða réttindi kjósenda.

Í fjórða lagi er í frumvarpinu lagt til að fjöldi þingsæta í Norðvesturkjördæmi og Suðvesturkjördæmi breytist í samræmi við auglýsingu landskjörstjórnar nr. 1108/2021, frá 1. október 2021. Sú breyting kveður á um það að í næstu alþingiskosningum verði sjö þingsæti í Norðvesturkjördæmi og 14 þingsæti í Suðvesturkjördæmi.

Í fimmta lagi er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um lagaskil eftir að ný kosningalög hafa tekið gildi og útgáfu kjörbréfa af hálfu landskjörstjórnar verið hætt. Í ákvæðinu er kveðið á um að landskjörstjórn skuli gefa út tilkynningar til þeirra varaþingmanna sem ekki fengu útgefin kjörbréf eftir alþingiskosningarnar 25. september 2021 og senda nöfn alþingismanna og varaþingmanna til birtingar í Stjórnartíðindum í samræmi við breytt fyrirkomulag 113. gr. kosningalaga.

Það er ástæða til að fara ítarlega yfir þessar breytingar hér þannig að þingmenn geti velt þeim vel fyrir sér og íhugað afstöðu sína til þeirra. Ég held að það sé sjálfsagt að verða við óskum um að gera þessar breytingar. En ég verð að ítreka þá afstöðu mína að það er ankannalegt, eftir heildarendurskoðun lagabálks, að þurfa að gera lagfæringar á löggjöfinni tvisvar sinnum í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd svo að hægt sé að halda íbúakosningar, eins og gert var í febrúarmánuði í nokkrum sveitarfélögum, og svo komi það upp núna að hér er um misræmi að ræða vegna dagsetninga og fresta á birtingu kjörskrár og því að skila inn framboðslistum með meðmælendum. En við þetta búum við hér á hinu háa Alþingi og munum auðvitað gera það sem við getum til að koma þessu þannig fyrir í lögunum að enginn vafi leiki á um rétt kjósenda og að hægt sé að greiða atkvæði í sveitarstjórnarkosningunum, koma atkvæðunum til skila utan kjörfundar eða á kjörstað og að enginn vafi leiki á lögmæti framboða þannig að hægt sé að kanna meðmælendalista, kjörskrár liggi fyrir, að allt sé lögum samkvæmt og sveitarstjórnarkosningar, sem fram eiga að fara í landinu 14. maí næstkomandi, séu algerlega í samræmi við lög, reglur og venjur hér á landi.