152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að rifja upp hvernig umfjöllunin var hér fyrir ári, um heildarendurskoðunina. Það voru ýmsar skringilegar breytingar sem lagt var til að gera á kosningaframkvæmdinni allri. Ég nefndi rafrænu kjörskrána fyrst en það voru ekki bara smærri sveitarfélögin sem sáu möguleg vandkvæði við hana, Reykjavíkurborg gerði verulegar athugasemdir vegna þess að fyrirsjáanleiki í því hvernig hægt væri að skipuleggja kjörstaði myndi fjúka út í veður og vind. Ef fólk væri hvatt til að mæta bara hvert sem er og kjósa hvar sem því sýndist væri ekki lengur hægt að tryggja að fólk hefði greiðan aðgang að kjörstað þar sem búið væri að sigta hópa u.þ.b. jafnt inn í hverja kjördeild. Eitt af því sem gerir kosningar aðgengilegar er einmitt að íslenskir kjósendur geta nánast gengið að því vísu að þurfa ekki að standa í röð. Fólk mætir á kjörstað og á tveimur til þremur mínútum er þetta búið. Við sáum bara hvernig innleiðing á rafrænum ökuskírteinum gekk í kosningunum í haust, það var ekki þrautalaust og olli töfum víða.

Of skammur tími til innleiðingar — ég tek líka fyllilega undir það. Sem betur fer erum við ekki með sumar af skrýtnustu breytingunum inni í lögunum. Við felldum t.d. út ákvæði um að stimpla ætti kjörseðil áður en hann yrði settur í kjörkassa sem hefði breytt kosningaathöfninni það mikið að traust fólks á tryggri framkvæmd væri kannski fokið út í veður og vind og hefði kannski orðið til þess að það yrði massaógilding á heilum haugum af atkvæðum.

Mig langar að velta því upp hvort þingmanninum þyki kannski ástæða til þess að lögin verði rýnd eitthvað sérstaklega, að settur verði á fót einhver (Forseti hringir.) starfshópur, eða nefnd eða hvað það er, til að ná utan um þær ambögur sem enn kunna að vera í textanum.