152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég spurðist fyrir um fjölgun þingmanna í Suðvesturkjördæmi á síðasta ári og fékk þau svör að ekki hefði verið nægilegur pólitískur vilji á Alþingi til að uppfæra í samræmi við íbúafjölda fyrir alþingiskosningarnar í september síðastliðnum. Það lýsir pólitískum veruleika sem við sem erum þingmenn í Suðvesturkjördæmi þekkjum ágætlega, og það verður að segjast eins og er að hér á Alþingi hefur umræðan um jafnt vægi atkvæða lítið færst úr stað eða fram á við mjög lengi, eiginlega áratugum saman, þó svo að ýmislegt hafi verið rætt.

Mig langar samt að koma aftur inn á fyrri spurningu hv. þingmanns um haustkosningarnar. Mér finnst það blasa við að haustkosningar henta ekki rytmanum og því skipulagi sem þó er í Stjórnarráðinu, á Alþingi og við fjárlagagerðina og að það hljóti að koma til mjög alvarlegrar íhugunar að festa alþingiskosningar, að festa kjördag, þannig að þær fari fram að vori eða snemma sumars, hvernig sem það er ákveðið, á fjögurra ára fresti. Sjálf er ég þeirrar skoðunar að tími sé kominn til að festa alþingiskosningar á fjögurra ára fresti og falli ríkisstjórn sé það verkefni þingsins að halda úti ríkisstjórn á milli alþingiskosninga.