152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á kosningalögum og lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka og erum að breyta þessum lögum enn eina ferðina. Ég geri svo sem ekki athugasemdir við efnisatriði þessa frumvarps, það er auðvitað rétt og skylt að bregðast við þeim ágöllum sem fram hafa komið til þess að hægt sé að halda sveitarstjórnarkosningar með góðu móti, sem eru einmitt, eins og komið var inn á hér áðan, alveg að fara að eiga sér stað. Það eru rétt rúmir tveir mánuðir í það. Það má þá ekki seinna vera að breyta kosningalögum og fer í raun langt umfram þau viðmið sem t.d. ÖSE eða kosningaeftirlitsbatterí úti í heimi hafa lagt til, sem er hálft ár eða jafnvel heilt ár fyrir kosningar, þ.e. að breytingar á lögum um kosningar séu ekki gerðar eftir þann tíma til að tryggja fyrirsjáanleika og öryggi kosninga. Þetta bendir kannski til allt of mikils seinagangs á síðasta kjörtímabili við að koma þessu frumvarpi í gagnið. Það var auðvitað mjög bagalegt að ekki hafi verið hægt að klára heildarendurskoðun á kosningalögum fyrir alþingiskosningarnar sem áttu sér ekki einu sinni stað að vori heldur að hausti. Ríkisstjórnin keypti sér meira að segja aukalega tæpt hálft ár en gat samt ekki komið og klárað kosningalagafrumvarpið á skikkanlegum tíma fyrir alþingiskosningar. Það hefði skipt sköpum í síðustu kosningum. Það hefði t.d. alveg haft áhrif á deiluna í Norðvesturkjördæmi ef þessi lög hefðu verið í gildi en ekki gömlu kosningalögin eins og raunin varð vegna þess að það þurfti einmitt að færa gildistímann aftur fyrir alþingiskosningarnar því að lögin voru samþykkt allt of seint til að gilda um þær kosningar. En núna erum við á lokametrunum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í einhverjum reddingum eins og minnst hefur verið á. Það er auðvitað mjög bagalegt að svo sé.

Ég vísa í samtalið sem ég átti áðan við hv. þingmann og hv. formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Þórunni Sveinbjarnardóttur, hvaða áhrif haustkosningar hafa líka haft á það hversu sein við erum með að koma þessum breytingum í gagnið og líka auðvitað að hafa þetta svona seint á síðasta löggjafarþingi sem þýddi að aðstæður fyrir mistök voru bara mjög góðar, ef svo mætti að orði komast. Við hver þinglok að vori er töluverð ringulreið, svo ekki sé meira sagt, hvað þá þegar þau þinglok eru lok síðasta þings fyrir kosningar. Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar, um að halda kosningar að hausti, var vond fyrir margar sakir. Hún var vond einfaldlega út frá afstöðunni sem það sýndi gagnvart næstu ríkisstjórn. Mögulega gáfu hæstv. ráðherrar sér að þau yrðu bara áfram í ríkisstjórn, gott og vel. Þeim tókst það ætlunarverk en ef þeim hefði ekki tekist það hefði næsta ríkisstjórn, ný ríkisstjórn, setið uppi með fjárlög fráfarandi ríkisstjórnar í fjórðung af kjörtímabilinu, fengið þau í fangið. Það er ekkert lýðræðislegt við það, herra forseti. Þar að auki setti þetta auðvitað gríðarlega mikinn þrýsting á þingið við vinnslu fjárlaga sem bjó líka til mjög frjóan jarðveg fyrir mistök og mjög ófrjóan jarðveg fyrir lýðræðislega umræðu, fyrir málamiðlanir, fyrir það sem þingið á að gera, sem er að vera vettvangur umræðu og gagnrýni á fjárlög ríkisstjórnarinnar. Þetta var í þriðja sinn sem ég upplifði það að hafa nánast engan tíma til að setja mig inn í fjárlög, til að afgreiða fjárlög. En hin tvö skiptin voru a.m.k. þess eðlis að það mætti kannski segja að það hafi ekkert verið við það ráðið. Þarna sprakk ríkisstjórn vegna mjög ljóts hneykslismáls er varðaði uppreist æru, þöggun og meðvirkni gagnvart þáverandi forsætisráðherra og föður hans. Það var kannski ekki við það ráðið að boða strax til kosninga þótt ég taki undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að mögulega væri réttast að skikka þingið í að finna út úr því þegar ríkisstjórn springur í stað þess að vera alltaf að boða til kosninga í von um að ná betri niðurstöðu næst, eins og virðist oft vera hvatinn að því að reyna ekki frekar að mynda nýja stjórn eins og má alveg samkvæmt núgildandi lögum, heldur að boða frekar til kosninga í von um að fara í einhverja öldu velgengni, eins og mér fannst svolítið vera tilgangurinn á bak við boðun síðustu kosninga. Nei, það var ekkert sem lá fyrir eða var óhjákvæmilegt gagnvart þessum haustkosningum. Það var einfaldlega mjög skýrt. Markmiðið og tilgangurinn með haustkosningum var að sitja á valdastólum eins lengi og mögulega var unnt. Það var ekkert annað markmiðið á bak við það. Það sneri ekki að neinu praktísku. Það var ekki neinum til góða nema ríkisstjórninni sjálfri og það var hvorki til þess fallið að auðvelda þinginu sín störf né næstu ríkisstjórn sem við tæki. Tilgangurinn var einfaldlega að halda aðeins lengur um stjórnartaumana en samt ekki svo lengi að þau neyddust til að leggja fram fjárlög. Þetta var í raun eins langur tími og mögulegt var fyrir þau að sitja á valdastólunum án þess að neyðast til að sýna á spilin með því að leggja fram fjárlög, sem út af fyrir sig er auðvitað merkilegt.

Gallarnir við haustkosningar eru því margvíslegir. Það sést vel á þessu frumvarpi að þetta hefur líka afleiðingar fyrir framkvæmd kosninga, sveitarstjórnarkosninga, fyrir vinnu þingsins sem nú þarf að hraða þessu máli í gegn og getur þar af leiðandi ekki veitt því jafn góða þinglega meðferð og það ætti í raun að gera. Svo er það þessi skrýtna staða að það eru alþingiskosningar að hausti og svo eru sveitarstjórnarkosningar að vori og mér finnst það ekki góð staða, virðulegi forseti. Það er ekki góð staða að hafa svona stutt á milli alþingiskosninga og sveitarstjórnarkosninga, vegna þess að mér finnst allt í lagi að almenningur fái smá frí frá kosningum inn á milli. Það er líka vegna þess að það er mikil fyrirhöfn og mikill tími sem fer í að efna til kosninga. Það er ekkert jákvætt að hafa svona ótrúlega stutt á milli þeirra. Þetta virðist núna eiga að vera framkvæmdin framvegis. Ég fæ ekki betur séð og ég fæ ekki betur heyrt eftir sérstaka umræðu hér í þinginu um daginn en að til standi að halda þessu fyrirkomulagi áfram óbreyttu, a.m.k. í tíð þessarar ríkisstjórnar. Mér finnst það ekki til fyrirmyndar, virðulegi forseti. Mér finnst að við þurfum að ræða það gagnvart sveitarstjórnarstiginu, sem hefur ekkert val um hvenær það heldur sínar kosningar, hvernig þessum málum eigi að vera háttað í framtíðinni. Þarf þá kannski að færa til sveitarstjórnarkosningar til að gefa betra rými? Þurfum við að breyta því hvernig við vinnum fjárlög? Hversu mörgum verkferlum, hversu mörgum verkefnum þurfum við að breyta og hliðra til til þess að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur geti setið aðeins lengur á valdastólum? Þau verða ansi mörg þegar allt er saman talið og þetta frumvarp er bara eitt dæmi um það.

En af því að við hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir ræddum líka aðeins áðan fjölda þingmanna í Suðvesturkjördæmi þá vil ég koma aðeins inn á það. Það er ekkert lýðræðislegt við það að kjósendur í einu kjördæmi hafi tvöfaldan atkvæðisrétt á við kjósendur í öðru kjördæmi. Ég hef spurt hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson út í það, mig minnir að ég hafi beint þessu til hans líka í útvarpsþætti fyrir kosningar, hvaða réttlæti væri í því að kjósendur hans í Suðvesturkjördæmi, því hann er jú þingmaður í Suðvesturkjördæmi, hefðu hálft atkvæði á við kjósendur í Norðvesturkjördæmi. Hann var nú ekkert voðalega hrifinn af þessari spurningu og svaraði henni á þá leið að það þyrfti að skoða þetta mál rosalega vel áður en eitthvað yrði gert í því, ef ég man rétt, hæstv. ráðherra er auðvitað frjálst að koma hér upp og leiðrétta mig. En mér þótti það merkilegt því að stjórnarliðum var gefið hvert tækifærið á fætur öðru fyrir síðustu kosningar til að breyta þessu óréttlæti, til að laga þessa skekkju sem er á milli kjósenda þessa lands, til að laga þennan lýðræðishalla. Maður hefði haldið að formaður flokksins, sem skreytir sig viðstöðulaust með orðinu lýðræðisveisla, hefði mögulega sýnt einhvern dug eða vilja til að tryggja að kjósendur í hans eigin kjördæmi hefðu lýðræðislegan rétt á við aðra kjósendur á Íslandi. Kjósendur í hans kjördæmi, og það er að stóru leyti fyrir hans eigin tilstuðlan, hafa kosningarrétt með minnst vægi á Íslandi og hafa fæsta þingmenn miðað við fjölda á Íslandi. Þetta leggur hann blessun sína yfir og segir að mögulega þurfi að skoða í einhverri nefnd þótt augljóslega séu til mjög margar leiðir til að takast á við þetta og margar leiðir hafi verið í boði fyrir kosningar og þeim hafi öllum verið hafnað.

Þannig að, já, það er aðeins verið að laga skekkjuna í þessu frumvarpi en hún er samt sem áður enn gríðarlega mikil. Það er eitthvað sem við hljótum öll að taka til okkar sem sitjum sem þingmenn. Ein manneskja og eitt atkvæði er grundvallarprinsipp sem lýðræðisríki ættu að halda í heiðri en við, vegna hagsmuna flokka sem græða á þessu kerfi, látum það bara viðgangast óáreitt. Þetta er auðvitað í boði þeirra flokka sem græða á þessu kerfi á kostnað lýðræðislegs réttar kjósenda. Það er Sjálfstæðisflokkurinn og það er Framsóknarflokkurinn og nú er það líka Vinstrihreyfingin – grænt framboð sem stendur í þessu stappi.

Við munum auðvitað greiða þessu frumvarpi leið í gegnum þingið, virðulegi forseti, enda er mikilvægt að kosningalögin séu skýr, þau séu rétt, það sé ekkert tilefni til að efast um gildi þeirra og að kjörskrár liggi fyrir á réttum tíma o.s.frv. En látum okkur þetta þó að kenningu verða gagnvart skipulagi þingsins, gagnvart geðþóttaákvörðunum ríkisstjórna um hvenær kosningar eigi að vera, þegar það hentar þeim, og gagnvart því að vinna mál vel og með góðum fyrirvara ef þau tengjast kosningum. Það er bara gríðarlega mikilvægt, virðulegi forseti, að kosningalög séu hafin yfir allan vafa, þau séu tilbúin og þau séu skýr vel fyrir kosningar. Mér finnst við alltaf vera að reka okkur á einhverja veggi í þessum efnum. Þar af leiðandi finnst mér góð hugmynd, sem fram kom í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar áðan, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki að sér það hlutverk að fylgja eftir þessum lögum, tryggja að framkvæmdin gangi vel fyrir sig og kanna það hvort fleiri vankanta sé þarna að finna og skoði jafnvel hvort ekki sé lýðræðishalla að finna í þessum lögum eins og ég hef verið að halda fram hérna vegna þess að kosningalögin liggja jú auðvitað á málefnasviði hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég held að það færi vel á því að sú nefnd myndi líka skoða hvernig við viljum hafa kosningalög okkar til framtíðar. Hvað eru sanngjarnar kosningar? Hvað er réttlæti þegar kemur að kosningarrétti?

Ég lýk ræðu minni á því, virðulegi forseti, að segja: Réttinum til að kjósa má ekki taka sem léttvægum eða sem einhverju formstagli eins og stundum er hreytt í okkur sem viljum standa vörð um formreglur. Þetta er grundvallarréttur og hann ber að umgangast af virðingu. Það á ekki að hlaupa í að breyta reglunum sem um hann gilda. Það verður að vanda vel til verka þegar verið er að fara í heildarendurskoðun á lagabálki sem þessum. Það virðist því miður ekki hafa tekist. Það er auðvitað mjög sorglegt og kannski sér í lagi fyrir flutningsmann frumvarpsins, hv. fyrrverandi þingmann Steingrím J. Sigfússon.