152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þessi upprifjun hv. þingmanns er nöturleg áminning um það hvernig störfin eru hér í lok haustþings og í lok vorþings þegar verið er að samþykkja hlutina að nóttu til þar sem oftar en ekki er kominn svefngalsi í mannskapinn sem hefur jafnvel verið á vaktinni í hátt í 20 klukkutíma. Þá geta mistök átt sér stað. Oft er það auðvitað ekki þannig, oft er fyrir löngu búið að klára alla vinnu við þingmál, eða ekki fyrir löngu, við skulum segja nokkrum dögum áður. En í þessu tilviki er mjög athyglisvert að fylgjast með því hvað á sér stað þarna á lokadögunum vorið 2021. Þetta var mjög sérstakt, það koma þrjár, fjórar breytingartillögur með nokkurra klukkutíma millibili. Það var alltaf: Heyrðu, já, það gleymdist hérna eitt í viðbót. Þegar þetta er gert svona er svo mikil hætta á að það verði mistök og jafnvel óafturkræf mistök. Hér erum við auðvitað með kosningalög og við getum ekki sagt að mistök geti haft bein skaðleg áhrif á persónulegt líf einstaklinga, fjárhag, líf og heilsu eða eitthvað slíkt. En þetta eru samt grundvallarréttindi og það má ekki leika sér með þau.