152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:27]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir mjög góða ræðu, mjög áhugaverða innsýn í þetta lagafrumvarp og tek undir megnið af því sem kom fram í hennar máli. Það er vissulega áhugavert að við skulum vera að afgreiða þetta mál hérna núna, fjórum mínútum í kosningar, og svo stuttu eftir að þessi lög voru samþykkt hér á þinginu. Það er sláandi að heyra lýsingarnar og dagsetningarnar og hvernig þetta var unnið hérna á síðasta þingi og sannarlega ekki til fyrirmyndar með hversu miklum hraða þetta var unnið. Það minnkar ekki áhyggjur manns af þessum vinnubrögðum hvernig fór í alþingiskosningum í haust. Þess vegna langar mig í rauninni að segja að þó að þetta mál hérna, sem felur í sér ákveðnar leiðréttingar á vitleysu í lögunum sem samþykkt voru í fyrra, líti út fyrir að vera lítið, virki eins og eitthvert smámál sem við þurfum klára, og kannski mætti að einhverju leyti segja að það sé það, þá er þetta ekki smámál, þetta er stórmál. Þetta er mikilvægt og þetta er alvarlegt mál. Það sem vakti kannski helst athygli mína í máli hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur er það sem ég hef velt fyrir mér og það er að þetta eru ekki fyrstu breytingarnar, fyrstu lagfæringarnar á einhverjum aulavillum í þessu lagafrumvarpi (Forseti hringir.) sem gerðar eru á þessu þingi. Spurningin sem mig langar fyrst og fremst að beina til þingmannsins er í rauninni bara: (Forseti hringir.) Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því að við munum þurfa að leiðrétta frekari klaufavillur áður en til kosninga kemur eftir fjórar mínútur?