152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:31]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og óttast að ég verði að taka undir áhyggjur hennar af því að við munum þurfa að gera frekari lagfæringar og breytingar á þessu áður en til kasta þessara laga kemur, sem er sannarlega ekki eftir bara fjórar mínútur. Ég á það til ýkja og biðst velvirðingar á þeim rangfærslum. Það vakti athygli mína við lesturinn á greinargerðinni með frumvarpinu — nú sit ég í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hafði þetta mál á borði sínu og var beðin um að afgreiða þetta nú í einum grænum til að bjarga þessum kosningum svo þetta yrði ekki tómt tjón — að þar kemur fram að lagt er til að viðmiðunardagur kjörskrár verði færður fjær kjördegi, þ.e. hann verði 38 dögum fyrir kjördag í stað 33 daga. Það eru aðrar svona talningar í þessu frumvarpi sem verið er að leiðrétta og ég verð að játa að það vekur sérstakar áhyggjur þegar það þarf að vera að leiðrétta talningu í tengslum við kosningar af augljósum ástæðum. Spurningin sem mig langaði að beina til hv. þingmanns í ljósi ræðu hennar og svara og í ljósi áhyggna minna, sem ég held að við deilum að mörgu leyti, miðað við þessi vinnubrögð, miðað við það sem við erum að gera hér og eðli þeirra athugasemda sem eru að koma fram á þessu stigi, er: Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af framkvæmd þeirra kosninga sem við erum að renna í núna? Höfum við eitthvað lært?