152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Höfum við eitthvað lært? Nei, það var ekki mikill vilji til að læra hér eftir stóra kosningaklúðrið í Norðvesturkjördæmi í haust. Það var enginn vilji til þess, því miður, og við sáum alveg hvað gekk á hér í þingsal þegar stjórnarliðar fóru að reyna að láta eins og þetta skipti engu máli, að þetta snerist um persónur og leikendur á einhvern hátt. Það er ótrúlega mikill vilji til þess að láta alls konar fúsk og handarbaksvinnubrögð smjúga fram hjá, því miður. Það er ótrúlega mikill vilji til þess. Ég hef áhyggjur af því að löggjafinn, Alþingi, og reyndar ekki síður framkvæmdarvaldið, sé ekki með fullnægjandi hætti að senda skýr skilaboð um að hvers kyns lögbrot séu ólíðandi. Ég verð að segja, af því að ég er farin að tala um þetta talningarmál þarna í Norðvesturkjördæmi, að það verður fróðlegt að sjá hvað kemur úr dómstólnum stóra í Strassborg. Það væri fróðlegt að vita hvar það mál er statt, hvort það sé farið þangað út og hvort dómurinn hafi samþykkt að taka málið fyrir. Ég held að við hljótum öll að bíða spennt eftir niðurstöðu þess. Það er algjört lágmark að kosningar og talning fari fram með tilhlýðilegum hætti og ég geri ráð fyrir að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu muni senda eftirlitsdeild til að fylgjast með kosningum hér á landi eftir rúma tvo mánuði.