152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. „Það er og verður vafalaust sífellt vandamál, hvernig eigi að tryggja rétt hinna einstöku kjósenda til þess að láta sínar skoðanir í ljós …“ Þessi orð voru látin falla á 70. löggjafarþingi í nóvember 1950, af hv. alþingismanni og afa mínum. Hann hefur sennilega hitt þarna naglann á höfuðið, að við yrðum enn þá að rífast um það hvernig eigi að framkvæma kosningar á almennilegan máta yfir 70 árum seinna. Ég var einn þeirra sem fékk að upplifa vafann um hvað væri lögmæt kosning og ekki lögmæt kosning og allt það klúður sem gerðist í Norðvesturkjördæmi. Eitt af því sem ég heyrði mjög oft á þeim tíma var að nýju lögin myndu taka á þessu, með nýju lögunum myndi þetta ekki gerast. En þessi nýju lög eru enn greinilega ekki alveg rétt og þarf að laga. Það sorglega er að það er fullt af atriðum sem klikkuðu í september síðastliðnum sem ekki er verið að laga. Ég hef t.d. oft verið spurður að því eftir að greidd voru atkvæði um kjörbréf af hverju ég hefði greitt atkvæði gegn því að uppkosning færi fram. Það var einföld ástæða fyrir því. Ég tel að sú grein sem þar er inni sé gömul og úrelt og hafi einfaldlega ekki átt við eftir að við hættum að vera með einstaklingskjördæmi, hvað þá eftir að við byrjuðum að vera með jöfnunarþingmenn. Það er kannski vandinn við það hvernig við vinnum með frumvörp yfir höfuð, við erum endalaust að plástra lög. Þá gerast tveir hlutir. Annars vegar verða eftir lagagreinar sem eiga kannski ekki lengur við en það er enginn að horfa á þær af því að við erum alltaf að horfa á breytingarnar sem eru lagðar til. Hins vegar strokum við óvart út einhverjar greinar af því að við erum eiginlega orðin alveg rugluð á því hvaða greinar eru enn í frumvarpinu.

Þegar ég tala um plástrafrumvörp þá er það nákvæmlega svona sem við fáum frumvörpin. Í einni grein segir: „Í stað tölunnar „8“ kemur: 7“ og svo á 27. gr. að breytast svona o.s.frv. og það er í rauninni mjög erfitt að sjá hvernig frumvarpið sjálft á eftir að líta út þegar við erum búin að segja já við þessum breytingum. Það er dálítið fyndið vegna þess að þegar við erum að greiða atkvæði um frumvörp þá greiðum við atkvæði um frumvörp svo breytt. Svo getur bara liðið heillangur tími þangað til þessi breytta útgáfa er komin á netið. Þar af leiðandi er mjög erfitt að sjá hvernig heildarlagatextinn lítur út. Þetta gerir það líka miklu erfiðara að fá nokkurs konar yfirlit yfir það hvað við erum í rauninni að samþykkja. Í dag er það þannig að ég þarf að horfa á frumvarpið sem er lagt fram á einum skjá og á öðrum er ég með núgildandi lög og svo reyni ég að púsla því saman í huganum hvernig þetta mun líta út. Ég hefði haldið að við gætum kannski fjárfest í smá tæknilausnum þannig að við gætum séð hvernig hlutirnir litu út svo breyttir. Þá gætum við kannski lesið yfir frumvörpin og áttað okkur á því hvernig lögin muni líta út eftir á. Eitt af því sem maður vill geta gert er að horfa í gegnum textann þegar hann er allur kominn saman og hugsa: Hvað gerist ef þetta gerist? Ef þessi grein kikkar inn, hvað þarf ég að skoða næst? Hvað gerist þá við hinar greinarnar? Öll þessi hugarleikfimi sem þarf að fara í gegnum til að átta sig á því hvernig lögin muni virka. Það er algjörlega ómögulegt, fyrr en kannski vikum eða mánuðum seinna þegar nýju lögin eru komin inn og við erum löngu búin að gleyma því að við vorum t.d. að semja ný kosningalög. Þetta er spurning um vinnubrögð hér á þingi sem draga úr hættunni á því að við þurfum að vera að uppfæra einhverja svona hluti. Og jú, hluti af því sem verið er að leggja til sem breytingar hér er að stilla dagsetningarnar af, að það sé kominn kjörskrá áður en við byrjuðum að taka næsta skref. Mér fannst t.d. alveg ótrúlega fyndið, eða kannski frekar kómískt, að ég gat farið og kosið utan kjörstaðar í alþingiskosningunum áður en fresturinn til að tilkynna framboð var einu sinni liðinn. Ég gat farið og kosið einhvern flokk sem var kannski ekki einu sinni til eða náði kannski ekki því lágmarki undirskrifta sem þurfti. Það er engin lógík í því, að stilla ekki þessar dagsetningar af. Það hafði enginn hugsað út í allt þetta.

Við erum líka með í nýju lögunum hluti í kringum utankjörfundaratkvæðagreiðslur, þar segir t.d. um tímasetningu að utankjörfundur skuli loka klukkan fimm hér á landi og erlendis daginn áður. Síðan er ansi loðið hversu fljótt þarf að koma þessum atkvæðum til skila. Ég held að það hafi enginn lesið allan þann texta í gegn og hugsað hvernig mismunandi dagsetningar þar spila saman við aðrar. Kannski erum við komin með það í utankjörfundaratkvæðagreiðslu núna eins og er í sumum fylkjum Bandaríkjanna að það dugar að setja atkvæði í póst á kjördag og svo er verið að telja í nokkrar vikur eins og í Norðvesturkjördæmi. Það er að sjálfsögðu líka ansi slæmt mál að það sé verið að keyra þetta allt í gegn á síðustu dögum þingsins. Eins og hv. 10. þm. Reykvíkinga, Andrés Ingi Jónsson, benti á þá var verið að greiða atkvæði um þessi lög um miðja nótt af því að það þurfti að klára allt á síðustu dögum þingsins. Því miður er skortur á úthaldseflandi vökva hér í mötuneytinu, öðrum en kaffi, til að halda fólki vakandi. Kannski þarf að gera eitthvað í því ef það eiga að vera hér þingfundir langt fram eftir nóttu. Þá gerast mistökin.

Er ég sammála þessu frumvarpi efnislega? Ja, það lagar sumt en ekki allt. Atkvæðavægið í Suðvesturkjördæmi er enn þá mjög skakkt og hefur t.d. verið bent á það af fræðimönnum að til þess að raunverulega jafna það hefði þurft að fjölga þingmönnum í 15 þingmenn en ekki 14. En það er ekki gert þó að verið sé sem betur fer að laga það að þingmannafjöldanum var breytt í 14 af landskjörstjórn en svo tóku í gildi lög sem settu hann aftur yfir í 13. Þetta er nú oft ansi skrýtið.

Mig langar að hvetja til þess sem tekið hefur verið fram hér af öðrum hv. þingmönnum að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki þessi lög til gagngerrar endurskoðunar. Mig langar að hvetja til þess og mælast til þess að frumvarpinu verði ekki vísað áfram til 3. umr. heldur sé vísað aftur til nefndar til að laga fleiri vankanta sem eru í kosningalögunum sem komu fram 25. september síðastliðinn. Og fyrst við erum að laga þessa hluti, af hverju ekki að laga alla vankantana en ekki bara þá sem ráðuneytinu datt í hug að þyrfti að laga núna? Þetta þurfum við að gera til þess að geta á endanum tryggt rétt hinna einstöku kjósenda til að láta skoðanir sínar í ljós.