152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður talar um að fleira þurfi að gera til að bæta kosningalögin en það sem við erum akkúrat að ræða hér í dag. Það eru margir sem hafa einmitt bent á að það sé eitt og annað sem ógni opnum og frjálsum lýðræðissamfélögum í nútímanum. Þar er oftast talað um upplýsingaóreiðu, falsfréttir og netárásir. Við þurfum að gæta að lýðræðinu eins og öðrum mikilvægum innviðum í samfélaginu. Við verðum að hafa vegi og við verðum að hafa flutningskerfi og velferðarkerfi, skólakerfi og allt þetta og svo verðum við að hafa lýðræði. Við verðum að gæta jafn vel að lýðræðinu og öllum öðrum nauðsynlegum innviðum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála þessari nálgun og hvort hann telji ekki að kosningalöggjöfin sé einmitt einn af þessum ferlum í lýðræðinu sem við þurfum að gæta að, og þess vegna ættum við að leggja mikla áherslu á að vanda til verka þegar kemur að umgjörðinni sem kosningalögin eru, hún þarf að vera traust. Það er margt sem hefur farið úrskeiðis við vinnslu þessara kosningalaga og nýlegra breytinga, en hvað segir hv. þingmaður um þetta?